„Ég var mjög ánægður með fyrri hálfleikinn þar sem við spilum frábæran handbolta en í síðari hálfleik þá fór allt í baklás hjá okkur sóknarlega. Við skorum einungis fimm mörk í seinni hálfleik. Ég upplifði þetta þannig að við fengum mörg góð færi og mörg hálffæri sem við hefðum átt að fara betur með,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari norska B-deildarliðsins Volda við handbolta.is í dag eftir að lið hans gerði jafntefli, 19:19, á heimavelli við Fjellhammer sem situr í neðsta sæti með þrjú stig eftir sex leiki.
Volda er hinsvegar í þriðja sæti með 10 stig eftir sjö leiki, er tveimur stigum á eftir Follo sem trónir á toppnum og stigi á eftir Bærum. Ålgård fylgir fast á eftir með níu stig.
Volda var þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfeik í dag, 14:11. „Sem betur fer var varnarleikurinn frábær þannig að Fjellhammer vann ekki leikinn. Eins og seinni hálfleikurinn spilaðist er ég sáttur með að tapa ekki leiknum en eins og sá fyrri var þá er ég svekktur að vinna ekki,“ sagði Halldór Stefán sem er á sínu fjórða keppnistímabili sem aðalþjálfari Volda. Hilmar Guðlaugsson er hans hægri hönd, kom til félagsins í sumar.
Sara Dögg Hjaltadóttir skoraði þrjú af mörkum Volda-liðsins.
„Fjellhammer er gott lið sem hefur verið í vandræðum á tímabilinu. Mörgum leikjum hjá þeim frestað þar sem margir leikmenn hafa verið í sóttkví þannig það hefur orðið þannig að þær hafa ekki fundið takt. Ég tel að þær muni enda mun ofar en taflan sýnir núna,“ sagði Halldór sem sér fram á mjög jafna og spennandi keppni í B-deildinni. Lítill munur er á liðunum 12 auk þess sem kórónuveiran hefur sett strik í reikninginn og mun vafalaust gera eitthvað áfram.
„Svona er fyrsta deildin hérna, gríðarlega jöfn. Randesund vann til dæmis Follo á þeirra heimavelli í dag með einu marki. Þannig það er enginn leikur sem maður á að vinna. Allir leikir eru gríðarlega erfiðir,“ sagði Halldór Stefán Haraldsson, þjálfari kvennaliðs Volda í Noregi.
Staðan:
Follo 12(8), Bærum 11(7), Volda 10(7), Ålgård 9(8), Charlottenlund SK 8(7), Grane Arendal 7(6), Gjerpen HK Skien 6(6), Levanger 6(7), Reistad 4(7), Randesund 4(8), Nordstrand 4(7), Fjellhammer 3(6).