- Auglýsing -
Harla ósennilegt er að markvörðurinn Andri Sigmarsson Scheving leiki handknattleik í efstu deild á næsta keppnistímabili. Andri hefur sett stefnu á meistaranám í hagfræði á næsta ári og ætlar að óbreyttu að einbeita sér að námi og láta handknattleikinn mæta afgangi.
„Ég mun sennilega taka pásu frá handboltanum og einbeita mér að náminu þótt engu hafi verið slegið föstu ennþá,“ sagði Andri við handbolta.is.
Andri hefur sett stefnuna á meistaranám utan lands og beinir sjónum sínum helst að skólum í Danmörku. Andri vonast til að það skýrist fljótlega hvar hann fær inni en háskóli í Árósum er efstur á blaði um þessar mundir.
Andri lék með Aftureldingu á nýliðnu keppnistímabili sem lánsmaður frá Haukum. Samkvæmt tölfræðiveitunni HBStatz var hann með 30,6% hlutfallsmarkvörslu á keppnistímabilinu.
- Auglýsing -