- Auglýsing -
Strákarnir í Reykjavíkurúrvalinu í handknattleik unnu bronsið á Balaton Cup fyrr í dag. Þeir burstuðu leikmenn Eskilstuna Guif með 18 marka mun, 34:16, og fengu þeir sænsku að kynnast því í síðari hálfleik hvar Davíð keypti ölið.
Leikurinn fór fram í aðalkeppnishöll ungverska stórliðsins Veszprém.
Leikurinn var jafn fyrstu mínuturnar en eftir það náðu strákarnir tveggja til fjögurra marka forskoti og héldu því til loka fyrri hálfleiks. Strákarnir áttu í smá erfiðleikum í uppstilltum sóknarleik seinni hluta hálfleiksins. Staðan í leikhléi var 12:9.
Strákarnir mættu virkilega vel til leiks í síðari hálfleik og gjörsamlega gengu frá Svíunum á fyrstu 15 mínútunum og lögðu þar með grunn að stórsigri.
Markaskor: Max Emil Stenlund 7, Antoine Óskar Pantano 5, Markús Páll Ellertsson 5, Nathan Asare 4, Bessi Teitsson 3, Alex Kári Þórhallsson 2, Matthías Ingi Magnússon 2, Marel Baldvinsson 2, Þórður Sveinn Einarsson 2, Dagur Leó Fannarsson 1, Hrafn Ingi Jóhannsson 1.
Í markinu varði Jens Sigurðarson 18 skot og var með 53% markvörslu. Jens var valinn maður leiksins af mótshöldurum.
Frábær árangur hjá Reykjavíkúrvalinu á mótinu. Strákarnir unnu Celje Lasko og Porto í riðlakeppninni en töpuðu fyrir Veszprém og Zagreb.
- Auglýsing -