Óðinn Þór Ríkharðsson og félagar í Holstebro náðu að tryggja sér enn einn sigurinn í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik í gærkvöld með afar góðum leik síðasta stundarfjórðunginn í heimsókn sinni til Skanderborg í 14. umferð deildarinnar, 35:33.
Skanderborg-liðið var lengi vel með yfirhöndina og var m.a. þremur mörkum yfir að loknum fyrri hálfleik, 18:15. Áfram voru heimamenn með forystuna fram í miðja síðari hálfleik þegar Holstebro tókst að snúa taflinu við og komast yfir. Óðinn og félagar gáfu forystuna aldrei af hendi eftir það.
Óðinn Björn skoraði þrjú mörk í leiknum úr fimm skotum og var einu sinni vísað af leikvelli.
Ágúst Elí Björgvinsson og samherjar í Kolding unnu kærkominn og öruggan sigur á botnliði Lemvig, 34:25, á útivelli. Ágúst Elí stóð annan hálfleikinn í marki Kolding og varði fjögur skot.
Staðan í dönsku úrvalsdeildinni:
Aalborg 23(13), GOG 22(12), Holstebro 18(13), Bjerringbro/Silkeborg 18(13), SönderjyskE 15(14), Mors Thy 13(13), Skanderborg 13(13), Skjern 13(13), Kolding 13(14), Århus 12(14), Fredericia 12(13), Ribe-Esbjerg 7(13), Ringsted 3(12), Lemvig 2(14).