Níu félög eru örugg um sæti í Meistaradeild kvenna í handknattleik á næstu leiktíð en alls taka 16 liða þátt í riðlakeppninni eins og undanfarin ár. Átta lið hafa sótt um sætin sjö sem eru opin, þar á meðal er norska liðið Storhamar.
Annar þjálfari Storhamar er Akureyringurinn Axel Stefánsson fyrrverandi landsliðsþjálfari kvenna hér á landi. Talsverðar líkur eru á að Storhamar verði eitt sjö liða sem hreppi sæti í deildinni, ekki síst í ljósi afar góðs árangurs norskra félagsliða í keppninni á undanförnum árum. Vipers Kristiansand hefur til að mynda unnið Meistaradeildina tvö ár í röð.
Ef Storhamar hreppir hnossið verður Axel annar íslenski þjálfarinn til þess að stýra liði í Meistaradeild Evrópu í kvennaflokki. Sá fyrsti var Kristján Halldórsson. Hann stýrði norska meistaraliðinu Larvik í Meistaradeildinni keppnistímabili 1997/1998.
Tilkynnt verður á mánudaginn hvaða 16 liða taka þátt í Meistaradeildunum tveimur á næsta keppnistímabili. Dregið verður í riðla í báðum mótum á föstudaginn 1. júlí.
Liðin níu sem er örugg um sæti í Meistaradeild kvenna eru:
RK Lokomotiv Zagreb (Króatía).
Odense Håndbold (Danmörk).
Metz Handball (Frakkland)
SG BBM Bietigheim (Þýskaland).
Györ Audi ETO KC (Ungverjaland).
WHC Buducnost (Svartfjallaland).
Vipers Kristiansand (Noregur).
CS Rapid Bucaresti (Rúmenía).
Team Esbjerg (Danmörk).
Eftirtalin átta félög hafa sótt um sæti, wild card, í Meistaradeild kvenna:
Storhamar (Noregur).
FTC-Rail Cargo Hungaria (Ungverjaland).
CSM Bucaresti (Rúmenía).
Borussia Dortmund (Þýskaland).
Brest Bretagne Handball (Frakkland).
DHK Banik Most (Tékkland).
RK Krim Mercator (Slóvenía).
Kastamonu Belediyesti GSK (Tyrkland).