- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

U20: Tókst að bjarga sér úr slæmri stöðu og ná stigi

Leikmenn íslenska landsliðsins stilla sér upp fyrir leikinn við Serba í dag. Mynd/Jónas Árnason
- Auglýsing -

Íslenska landsliðið í handknattleik karla, skipað leikmönnum 20 ára og yngri, varð að gera sér að góðu jafntefli, 28:28, í fyrsta leik sínum á Evrópumeistaramótinu í Porto í dag. Eftir að hafa verið þremur mörkum yfir í hálfleik, 18:15, þá gekk sóknarleikurinn ekki sem skildi í síðari hálfleik og því fór sem fór.

Jóhannes Berg Andrason ógnar serbensku vörninni. Mynd/Jónas Árnason


Strákarnir sýndu mikinn baráttuhug í lokin með því að tryggja sér annað sætið eftir að hafa verið þremur mörkum undir, 28:25, þegar fimm mínútur voru til leiksloka.


A.m.k. fimm vítaköst fóru í súginn hjá íslenska liðinu í leiknum. Munar svo sannarlega um minna.


Næsti leikur verður á morgun gegn landsliði Ítalíu sem tapaði fyrir Þýskalandi í dag með níu marka mun, 35:26. Viðureignin við Ítalíu hefst klukkan 11 að íslenskum tíma.

Ekki gekk sem skildi í vítaköstum í leiknum. M.a. brást Guðmundi Braga Ástþórssyni bogalistin í tvígang. Mynd/Jónas Árnason


Eftir fyrstu mínútur leiksins þá voru leikmenn íslenska liðsins sterkari í fyrri hálfleik. Þeir náðu mest fimm marka forskoti, 16:11, þegar skammt var til loka fyrri hálfleiks eftir að hafa ráðið lögum og lofum mínúturnar á undan.


Þremur mörkum munaði í hálfleik, 18:15, Íslandi í vil. Fljótlega í síðari hálfleik var ljóst að ákveðnara serbneskt lið var mætt til leiks. Serbar skoruðu fimm af fyrstu sex mörkum síðari hálfleiks og náðu yfirhöndinni. Henni hélt liðið þangað til í blálokin.

Hornamennirnir Kristófer Máni Jónasson og Símon Michael Guðjónsson skoruðu þrjú mörk hvor. Mynd/Jónas Árnason


Ísland átti þess kost að vinna leikinn en skot Andra Más Rúnarssonar var varið sex sekúndum fyrir leikslok. Serbar freistuðu þess að nýta síðustu sekúndurnar til þess að vinna. Allt kom fyrir ekki. Jóhannes Berg Andrason komst inn í sendingu á síðustu sekúndu en leiktíminn sem eftir var nægði ekki til þess að skora löglegt mark.

Brynjar Vignir Sigurjónsson varði afar vel í markinu, ekki síst í síðari hálfleik. Átti hann ekki hvað sístan þátt í að íslenska liðið hélt sjó undir lokin og tókst að krækja í annað stigið þegar upp var staðið.


Mörk Íslands: Benedikt Gunnar Óskarsson 7/6, Andri Már Rúnarsson 3, Einar Bragi Aðalsteinsson 3, Guðmundur Bragi Ástþórsson 3, Jóhannes Berg Andrason 3, Kristófer Máni Jónasson 3, Arnór Viðarsson 2, Símon Michael Guðjónsson 2, Andri Finnsson 1, Ísak Gústafsson 1.

Varin skot: Brynjar Vignir Sigurjónsson 13, 40,63% – Jón Þórarinn Þosteinsson 1, 10%.


Handbolti.is fylgdist með leiknum í textalýsingu hér fyrir neðan.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -