Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss og þrautreyndur ungmennafélagsmaður til margra ára, er ómyrkur í máli vegna banns sem hefur ríkt vikum og mánuðum saman við æfingum ungmenna á aldrinum 16-20 ára. Hann ritar í dag pistil á Faceebook-síðu sína sem handbolti.is fékk góðfúslegt leyfi til að vitna í.
Þórir segir framkomu samfélagsins við ungmenni vera óboðlega.
„Flestir þeirra þurfa að skila fullum afköstum í námi, þeim er bannað að mæta í skóla, bannað að hitta vini sína, bannað að skemmta sér og bannað að stunda íþróttir. Eftir heila önn án þess að fá að mæta í skólann eru þeir jafnvel boðaðir í staðpróf með innan við viku fyrirvara!
Þetta er ávísun á brottfall úr skólum, niðurbrot unglinga og bann við íþróttum er ávísun á þunglyndi. Þetta er að mínu mati óþarflega harkalegt. Það er staðreynd að hægt væri að opna fyrir íþróttastarf þessa aldurshóps án mikillar smithættu,“ skrifar Þórir sem telur jafnframt , og talar þá af reynslu að vel sé mögulegt að heimila æfingar í afreksíþróttum án smithættu sé farið eftir settum reglum.
„Sundrum ekki þjóðinni, -reynum frekar að sameinast í baráttunni, – íþróttafólkið á að axla sinn skerf en mér finnst hagsmunir unga fólksins hafa orðið útundan og langtíma æfingabann fyrir 16 ára og eldri er að mínu mati óþarflega harkalegt!,“ skrifar Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildar Selfoss.
Pistil Þóris í heild má lesa með því að smella hér.