Handknattleikur hefur ekki verið mikið stundaður á Austfjörðum eða á Héraði á síðustu árum þótt aðstaða sé víða prýðileg í nokkrum bæjum með ágætum íþróttahúsum. Nú kann að verða breyting á.
Á dögunum barst fjöldi handbolta til Ungmennafélagsins Neista á Djúpavogi frá Handknattleikssambandi Íslands. Prýðilegt íþróttahús er á Djúpavogi auk þess sem afar góð þekking á íþróttinni er fyrir hendi í bænum. M.a. er sóknarpresturinn, sr. Alfreð Finnsson, þrautreyndur handknattleiksþjálfari sem hefur þjálfað bæði hér á landi og utan lands.
Þar með getur að minnsta kosti yngri kynslóð Djúpavogsbúa og nágranna tekið til óspilltra málanna við æfingar og eins og segir á Facebook-síðu Íþróttamiðstöðvar Djúpavogs: „Hver veit nema næsta handboltastjarna leynist í hópi krakka á Djúpavogi.“
https://www.facebook.com/hreyfing765