Hákon Daði Styrmisson lék sinn fyrsta leik með Gummersbach í þýsku 1. deildinni í handknattleik um níu mánuðum eftir að hann sleit krossband á æfingu 17. desember á síðasta ári. „Ég fékk grænt ljós á að spila og fékk mínar fyrstu mínútur í dag og einnig minn fyrsta brottrekstur,“ sagði Hákon Daði eldhress í svari við skilaboðum til handbolta.is í dag.
„Ótrúlega gaman“
„Þetta var algjörlega frábært,“ sagði Hákon Daði ennfremur og bætti við. „Ótrúlega gaman að geta hjálpað liðinu og fara aftur á völlinn. Leiðin hefur verið löng og alls ekki auðveld.“
Gummersbach vann ASV Hamm-Westfalen í uppgjöri nýliðanna í þýsku 1. deildinni í dag, 29:28, á heimavelli. Gummersbach hefur þar með unnið tvo af fyrstu þremur leikjum sínum í deildinni en liðið endurheimti sæti í efstu deild í vor eftir fjögurra ára fjarveru.
Guðjón Valur Sigurðsson er þjálfari Gummersbach. Elliði Snær Viðarsson lék með Gummersbach að vanda en náði ekki að skora. Elliði Snær var fastur fyrir í vörninni, að vanda.
Meistarar á sigurbraut
Ómar Ingi Magnússon skoraði níu mörk, þar af sjö úr vítaköstum, auk þriggja stoðsendinga, þegar SC Magdeburg vann Wetzlar, 32:28, á heimavelli. Gísli Þorgeir Kristjánsson skoraði þrjú mörk og gaf fjórar stoðsendingar í leiknum. Meistarar Magdeburg halda áfram þar sem frá var horfið á síðustu leiktíð. Vinna þeir hvern leikinn á fætur öðrum.
Ómar Ingi er næst markahæstur í deildinni eftir þrjár umferðir. Hann hefur skorað 26 mörk, fjórum færri en Dominik Mappes leikmaður Gummersbach.
Arnór Þór Gunnarsson skoraði eitt mark þegar Bergischer tapað fyrir THW Kiel í Kiel, 35:29.
Erlangen vann Göppingen með sex marka mun, 34:28, á heimavelli. Ólafur Stefánsson er aðstoðarþjálfari Erlangen sem hefur farið vel af stað í deildinni.
Staðan í þýsku 1. deildinni: