„Tapið var gríðarlega svekkjandi í jöfnum leik þar sem sigurinn gat alveg eins fallið með okkur,“ sagði Díana Dögg Magnúsdóttir leikmaður og fyrirliði BSV Sachsen Zwickau við handbolta.is í gær eftir að lið hennar tapaði með einu marki, 29:28, í heimsókn til Bad Wildungen í þýsku 1. deildinni í handknattleik í gær. BSV Sachsen Zwickau er án stiga í deildinni að loknum tveimur umferðum.
Díana Dögg skoraði fimm mörk, gaf fjórar stoðsendingar, skapaði eitt færi og vann þrjú vítaköst og stal boltanumm fjórum sinnum. „Ég var sátt við sjálfa mig, átti fínan leik bæði í vörn og sókn,“ sagði Díana Dögg ennfremur en þetta var fyrsti leikur hennar með liðinu á keppnistímbilinu. Hún var meidd þegar Zwickau tók á móti meisturum Bietigheim í fyrstu umferð.
Odden skoraði ekki
Sara Odden, fyrrverandi leikmaður Hauka, skoraði ekki fyrir Zwickauliðið í leiknum. Hún átti eitt markskot sem geigaði, gaf eina stoðsendingu og var einu sinni vísað af leikvelli í tvær mínútur.
Sandra tapaði líka
Sandra Erlingsdóttir skoraði þrjú mörk í tveggja marka tapi liðs hennar TuS Metzingen í heimsókn til Blomberg-Lippe, 29:27. Sandra gekk til liðs við við Metzingenliðið í sumar en liðið er með bækistöðvar í suðurhluta Þýskalands.
Metzingen hefur tvö stig að loknum tveimur viðureignum eins og Blombergliðið sem var með tveggja maka forskot, 16:14, að loknum leiknum í gær.
handbolti.is nýtur ekki opinbers rekstrarstuðnings.