Ellefu mánuðir eru liðnir síðan landsliðskonan í handknattleik og HK-ingurinn, Tinna Sól Björgvinsdóttir, fékk talsvert högg á gagnauga á æfingu. Vonir stóðu til að hún jafnað sig á nokkrum vikum og mætti aftur til leiks á nýjan leik. Það gekk ekki eftir og enn í dag er óljóst hvort og þá hvenær Tinna Sól snýr til baka á handknattleiksvöllinn til æfinga og leikja.
„Ég er misjöfn eftir vikum sem tengist væntanlega álagi við vinnu og nám,“ sagði Tinna Sól þegar handbolti.is forvitnaðist um heilsufar hennar á dögunum.
Kemur rólega til baka
„Ég er hægt og rólega að koma til baka en verð að gæta mín,“ sagði Tinna Sól ennfremur sem nýlega hafði lokið tveimur leikjum með landsliðinu í október í fyrra, gegn Svíum og Serbum, þegar óhappið varð á æfingu með félögum sínum hjá HK.
Gerði ekkert í þrjá mánuði
„Ég hélt að ég myndi mæta fljótlega aftur á æfingu en raunin varð önnur. Ég gerði nánast ekkert í þrjá mánuði. Púlsinn var í lagi þegar ég lá fyrir en hækkaði um leið og ég sat og hækkaði enn meira þegar ég stóð upp. Eftir skoðun var ég greind með sjúkdóminn POTS sem er þekktur meðal þeirra sem fá þung höfuðhögg,“ sagði Tinna Sól sem segist varla vita hvernig hún komst í gegnum lokapróf í einni námsgrein í rekstrarverkfræði nokkrum dögum eftir höggið.
Lyf draga úr einkennum
„Ég er á lyfjum sem draga úr einkennum sjúkdómsins sem á að verða úr sögunni þegar fram líða tímar. Óvissan er hinsvegar verst og leiðinlegt að vita ekki hvenær maður hefur jafnað sig.
Ég er bjartsýn á að í fyllingu tímans komi ég eitthvað til baka,“ sagði Tinna Sól Björgvinsdóttir, handknattleikskona, verkfræðinemi og enn eitt fórnarlamb alvarlegra höfuðhögga í íþróttum í samtali við handbolta.is.
Hvað er POTS? POTS (e. Postural orthostatic tachycardia syndrome) er heilkenni sem veldur því að hjartsláttartíðni eykst við stöðubreytingar, t.d. að setjast eða standa upp. Orsök: Truflun á starfsemi ósjálfráða taugakerfisins. Orsök er ekki alltaf þekkt. Stundum þróast POTS skyndilega eftir veirusýkingu, áverka, meðgöngu eða á meðgöngu. Unglingar þróa stundum með sér POTS en með tímanum fara einkenni minnkandi og hverfa á nokkrum árum. Einkenni: Sumir hafa væg einkenni en aðrir upplifa skerðingu á lífsgæðum. Helstu einkenni eru: svimi, hjartsláttarónot, yfirlið, truflun við hugsanir, minni og einbeitingu, stundum kallað heilaþoka, skjálfti og aukin svitamyndun, þreyta, höfuðverkur, svefntruflanir, brjóstverkur, slappleiki, grunn og hröð öndunartíðni. Sumir einstaklingar finna fyrir versnun á einkennum þegar það finnur fyrir hita, eftir máltíð, við hreyfingu eða þegar tíðarblæðingar eiga sér stað. Greining: Ef hjartsláttartíðni eykst um 30 slög eða fleiri á mínútu innan við 10 mínútur frá því að einstaklingur stóð upp (40 slög eða fleiri hjá 12-19 ára). Þessi aukning á hjartslætti varir í 30 sekúndur eða lengur og önnur einkenni POTS fylgja. PoTS hefur áhrif á fjölda fólks en greinist oftast hjá stúlkum og konum á aldrinum 15 til 50 ára. Einnig eru oft gerðar rannsóknir til að staðfesta greiningu og útiloka aðra kvilla. (Afritað af vef Heilsuveru)