- Auglýsing -
Frændþjóðirnar Noregur og Danmörk mætast í síðari undanúrslitaleik EM kvenna í handknattleik í kvöld. Þjóðirnar hafa leitt saman hesta sína í handknattleik kvenna í 24 skipti. Leikirnir eru ávalllt spennandi og í raun mætti kalla þá „el classico“ kvennahandboltans. Bæði lið hafa leikið afar vel á mótinu til þessa og þarna eru að mætast bestu sóknarlið mótsins sem og bestu markverðirnir. Norðmenn eru taplausir í mótinu. Danir hafa unnið fimm leiki en tapað einum, fyrir Evrópumeisturum Frakka í riðlakeppninni.
Noregur – Danmörk | kl 19.30 | Beint á RÚV2
Dómarar: Cristina Nastase / Simona-Raluca Stancu (Rúmeníu).
- Þessi lið eru með besta sóknarleikinn á mótinu. Norska liðið hefur skorað 205 mörk og eru með 66% sóknarnýtingu. Danir hafa skorað 166 mörk og eru með 64% sóknarnýtingu.
- Katrine Lunde, Noregi, með 39% hlutfallsmarkvörslu og Daninn Sandra Toft með 38% markvörslu gerir þær að tveimur bestu markvörðum mótsins til þessa.
- Noregur þarf aðeins að skora 56 mörk í tveimur síðustu leikjum sínum til þess að ná að rjúfa 3.000 marka múrinn á EM. Tólfta mark Dana í leiknum í kvöld verður 2.500. mark dansks landsliðs í lokakeppni EM. Aðeins norska liðið hefur skorað fleiri mörk í sögu EM.
- Þessar þjóðir hafa mæst á öllum Evrópumeistaramótum til þessa ef undan er skilið EM 2018 þegar hvorugri þjóðinni tókst að komast í undanúrslit.
- Noregur hefur unnið átta af tólf leikjum þjóðanna á EM. Einn þeirra var sigurleikur í undanúrslitum á EM fyrir tíu árum í Herning. Fimm leikmenn í leikmannahópi Noregs í leiknum fyrir ártug verða einnig með á eftir, Katrine Lunde, Heidi Löke, Nora Mörk, Marit Frafjord og Camilla Herrem.
- Veronica Kristiansen kemur inn í norska landsliðið á nýjan leik eftir að hafa setið yfir í viðureigninni við Ungverja á þriðjudaginn. Marte Tomac verður utan liðs í staðinn. Þetta verður 140. landsleikur hinnar þrítugu Kristiansen.
- Danir og Norðmenn mættust í tveimur vináttulandsleikjum í Vejle í aðdraganda mótsins. Norska landsliðið vann báða leiki, 27:25 og 29:26.

- Auglýsing -