Franski handknattleiksmaðurinn Nikola Karabatic var valinn handknattleiksmaður annars áratugar aldarinnar í kjöri sem vefsíðan handball-planet stóð fyrir en niðurstaðan var kynnt í gær. Guðjón Valur Sigurðsson var einn þriggja sem valið stóð um í kjöri á vinstri hornamanni áratugarins. Hann hafnaði í öðru sæti á eftir Þjóðverjanum Uwe Gensheimer.
Vefsíðan handball-planet hefur staðið fyrir þessu kjöri undanfarna tvo mánuði. Hægt var að kjósa á milli þriggja manna í hverri stöðu á leikvellinum og síðan um besta handknattleiksmann áratugarins. Lesendum stóð til boða að taka þátt. Eins var handball-planet með hóp fyrrverandi handknattleiksmanna í dómnefnd auk nokkurra þjálfara og blaðamanna.
Karabatic varð sem fyrr segir efstur í kjöri á handknattleiksmanni annars áratugarins. Daninn Mikkel Hansen varð annar og Norður-Makedóníumaðurnn Kiril Lazarov hafnaði í þriðja sæti.
Nánar er hægt að skoða niðurstöðurnar hér.