Karlalið Hauka í handknattleik stendur í stórræðum um helgina. Fyrir dyrum standa tveir leikir við Sabbianco Anorthosis Famagusta á Nikósíu á Kýpur á morgun og á sunnudaginn í 2. umferð Evrópubikarkeppni. Báðar viðureignir hefjast klukkan 18 að okkar tíma.
Aðeins er ár síðan leikmenn Hauka voru síðast á Kýpur en þeir lögðu Parnassos Strovolou í tvígang í sömu keppni, 25:14, og 37:25.
Meistararlið Kýpur
Eftir því sem næst verður komist eru Parnassos Strovolou og Sabbianco Anorthosis Famagusta tvö sterkustu liðin í handknattleik karla á Kýpur um þessar mundir. Óvíst er hvort draga megi ályktun af styrkleika við Sabbianco Anorthosis Famagusta með því að líta til getu liðsins sem Haukar léku við á síðasta ári. Fyrir liggur þó að andstæðingur Hauka um helgina varð meistari á Kýpur í vor.
Hávaxnir, þungir og leika hægt
„Ég hef séð einn nýlegan leik með liðinu og þar kemur fram að það er skipað hávöxnum leikmönnum, nokkuð reynslumiklum. Leikur þess er hægur og stundum draga leikmenn svo mikið niður í hraðanum að hann er nánast enginn,“ sagði Rúnar Sigtryggsson þjálfari Hauka þegar handbolti.is heyrði í honum fyrir hádegið í dag.
Haukar komi til Nikosiu seint í gærkvöld. Leikmenn fengu að sofa út í morgun og fara á æfingu í keppnishöllinni þegar á daginn líður.
Skytturnar eru ágætar
„Miðjumaðurinn er nokkuð kvikur í hreyfingum. Hann stjórnar skyttunum vel og reynir mikið að klippa þær inn í skot. Skytturnar eru ágætar. Hinsvegar er mikill massi í liðinu. Sóknirnar eru langar en vel út færðar, að minnsta kosti samkvæmt þessu sem við höfum séð,“ sagði Rúnar sem vill ekki velta of mikið vöngum yfir möguleikum Hauka í leikjunum tveimur.
Fæst orð bera minnsta ábyrgð
„Fæst orð bera minnsta ábyrgð. Út frá sögunni þá eigum við að vera með sterkara lið. Hinsvegar hefur það ekki hentað okkur vel upp á síðkastið ef andstæðingurinn leikur langar sóknir. Við höfum verið á hinum endanum, leikið alltof stuttan sóknarleik. Við verðum að bæta leik okkar á því sviði til þess að ekkert óvænt komi upp á,“ sagði Rúnar ennfremur.
Níu erlendir leikmenn
Níu erlendir leikmenn af fjölbreyttu bergi brotnir eru í leikmannahópi Sabbianco Anorthosis Famagusta. Einn erlendur leikmaður er í hverri stöðu nema á línunni þar sem liðið hefur úr þremur erlendum leikmönum að ráða. Fjórir leikmenn eru yfir tveir metrar.
Ólafur Ægir Ólafsson fór ekki með Haukum út af persónulegum ástæðum. Eins er Sigurður Jónsson ekki með í för.
Guðmundur Bragi Ástþórsson og Magnús Gunnar Karlsson þreyta próf í HR meðan á dvöl þeirra stendur á Nikósíu. „Þeir fengu leyfi til þess að taka prófin úti. Það er mjög vel gert af HR að heimila þetta,“ sagði Rúnar.
Vonir standa til þess að streymt verði frá leikjunum. Ef af því verður tilkynnir handbolti.is um streymið auk þess sem textalýsing verður á handbolta.is hvað sem tautar og raular. Eins verður að finna upplýsingar um leikina á samfélagssíðum Hauka topphandbolta.