Grótta vann langþráðan og mikinn baráttu sigur á Haukum í Olísdeild karla í Hertzhöllinni á Seltjarnarnesi í kvöld, 25:24. Þetta er fyrsti sigur Gróttu í Olísdeildinni síðan 22. september. Síðan hefur liðið leikið sex leiki, fimm í deild og einn í bikar og krækt í tvö jafntefli. Enda var kátt á hjalla í Hertzhöllinni í leikslok svo að litlu mátti muna að kústar og moppur í salnum dönsuðu af gleði með ofsaglöðum stuðningsmönnum og leikmönnum.
Gróttumenn virtust vera á góðri leið með að tapa leiknum þegar skammt var eftir og tveimur mörkum undir, 22:24. Með seiglu og baráttu og endslepptum leik Hauka þá skoruðu Gróttumenn þrjú síðustu mörkin og tryggðu sér sigur. Ágúst Emil Grétarsson skoraði sigurmarkið þegar örfáar sekúndur voru til leiksloka.
Haukar komust í fyrsta sinn yfir, 23:22, þegar níu mínútur voru til leiksloka. Þeir höfðu þá lagt á sig mikla vinnu við að éta upp forskot Gróttu sem var fjórum mörkum yfir í hálfleik, 15:11. Ólafur Ægir Ólafsson skorað 24. mark Hauka þegar sjö mínútur voru eftir af leiktímanum. Byr var í seglum Hauka. Það dugði þeim ekki. Leikmenn Gróttu gáfust ekki upp og skoruðu þrjú síðustu mörkin.
Guðmundur Bragi Ástþórsson bar uppi sóknarleik Hauka á löngum köflum. Hann skoraði til að mynda síðustu sex mörk liðsins í fyrri hálfleik og alls 11 í leiknum. Sóknarleikurinn var annars ekki góður hjá Haukum. Varnarleikurinn var fínn í síðari hálfleik og þá varði Magnús Gunnar Karlsson vel. Þetta tvennt dugði ekki til.
Gróttumenn eru baráttuglaðir og gefast aldrei upp í leikjum eins og sannaðist nú og reyndar einnig síðast þegar þeir skoruðu tvö síðustu mörkin gegn Herði og kræktu í jafntefli. Einar Baldvin var góður í markinu. Eins var Jakob Ingi öflugur svo ekki sé talað um baráttujaxlinn Hannes Grimm.
Mörk Gróttu: Jakob Ingi Stefánsson 10/2, Hannes Grimm 4, Ágúst Emil Grétarsson 2, Birgir Steinn Jónsson 2, Akimasa Abe 2, Þorgeir Bjarki Davíðsson 1, Theis Koch Söndergard 1, Daníel Örn Griffin, Jóel Bernburg 1.
Varin skot: Einar Baldvin Baldvinsson 15/1, 39,5%.
Mörk Hauka: Guðmundur Bragi Ástþórsson 11/5, Ólafur Ægir Ólafsson 3, Andri Már Rúnarsson 3, Stefá Rafn Sigurmannsson 2, Geir Guðmundsson 2, Andri Fannar Elísson 1, Heimir Óli Heimisson 1, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1.
Varin skot: Magnús Gunnar Karlsson 7/1, 41,2% – Matas Pranckevicius 2, 11,8%.
Staðan í Olísdeild karla:
Valur | 10 | 9 | 0 | 1 | 332 – 281 | 18 |
Afturelding | 10 | 6 | 2 | 2 | 301 – 275 | 14 |
FH | 10 | 6 | 2 | 2 | 291 – 285 | 14 |
Fram | 10 | 5 | 3 | 2 | 299 – 192 | 13 |
Stjarnan | 10 | 4 | 3 | 3 | 295 – 285 | 11 |
ÍBV | 9 | 4 | 2 | 3 | 304 – 275 | 10 |
Selfoss | 10 | 4 | 1 | 5 | 301 – 311 | 9 |
Grótta | 9 | 3 | 2 | 4 | 251 – 249 | 8 |
KA | 10 | 3 | 2 | 5 | 283 – 297 | 8 |
Haukar | 10 | 3 | 1 | 6 | 290 – 284 | 7 |
ÍR | 10 | 2 | 1 | 7 | 281 – 342 | 5 |
Hörður | 10 | 0 | 1 | 9 | 289 – 341 | 1 |
Handbolti.is fylgdist með leiknum í Hertzhöllinni í textalýsingu hér fyrir neðan.