- Oddur Gretarsson er í liði 14. umferðar í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Þetta er í þriðja sinn sem Oddur er í liði umferðinnar á leiktíðinni. Hann lék einu sinni sem oftar afar vel þegar Balingen-Weilstetten gerði jafntefli, 26:26, gegn Eisenach á útivelli á laugardaginn þegar efstu lið deildarinnar áttust við.
- Óðinn Þór Ríkharðsson skoraði þrjú mörk þegar svissneska meistaraliðið Kadetten Schaffhausen vann Göppingen, 25:24. í A-riðli Evrópudeildarinnar í handknattleik í gærkvöld. Leikurinn fór fram í Þýskalandi. Aðalsteinn Eyjólfsson er þjálfari Kadetten sem hefur náð afar góðum árangri í keppninni til þessa og fengið átta stig af tíu mögulegum í öðru sæti.
- Teitur Örn Einarsson skoraði eitt mark fyrir Flensburg í sex marka sigri liðsins á TM Benidorm í B-riðli Evrópudeildarinnar í gærkvöld, 38:32. Leikurinn var háður á Spáni. Flensburg er efst í B-riðli með átta stig af tíu mögulegum og fær ungverska liðið FTC í heimsókn í Flens-Arena á næsta þriðjudag.
- Danskir fjölmiðlar fullyrða að Nykøbing Falster hafi fengið greiddar um 100.000 danskra króna fyrir söluna á hollensku landsliðskonunni Estavana Polman til rúmenska liðsins Rapid Búkarest í síðustu viku. Polman samdi við Rapid til tveggja ára og skorað fjögur mörk í fyrsta leik sínum með liðinu, gegn Györ, í Meistaradeildinni um síðustu helgi.
- Franski landsliðsmaðurinn Hugo Descat er sagður vera í kapphlaupi við tímann um að ná heimsmeistaramótinu í handknattleik í næsta mánuði. Descat meiddist illa í hné um síðustu helgi í leik með Montpellier. Liðsfélagi Descat, Karl Konan, hefur víst afskrifað mótið eftir að hafa ristarbrotnað á dögunum.
- Franska handknattleikskonan Raphaëlle Tervel hefur ákveðið að taka fram skóna eftir að þeir hafi legið upp á hillu í átta ár. Tervel sem er 43 ára gömul ætlar að freista þess að létta undir með sínu gamla liði Györ en margir leikmenn liðsins eru meiddir um þessar mundir.
- Ítalski landsliðsmarkvörðurinn Domenico Ebner verður liðsfélagi Viggós Kristjánssonar hjá Leipzig frá og með næsta sumri. Ebner hefur samið við félagið til tveggja ára. Hann er nú markvörður hjá Hannover-Burgdorf.
- Auglýsing -