Af 16 dómarapörum sem munu dæma leikina í Olís- og Grill 66-deildunum í handknattleik á komandi leiktíð er aðeins tvær konur, þ.e. eitt par, Ellen Karlsdóttir og Hekla Daðadóttir. Ellen er að mæta til leiks aftur eftir stutt hlé eftir því sem næst verður komist. Konur hafa sótt í sig veðrið við dómgæslu víða um Evrópu og árum saman hafa konur nær eingöngu dæmt í lokamótum EM og HM kvenna auk þess sem þær hafa einnig dæmt á lokamótum í karlaflokki, t.d. á EM í ársbyrjun.
Fyrir utan pörin 16 þá eru fimm stakir dómarar sem geta annað hvort dæmt saman í einhverjum tilfellum eða hlaupið í skarðið fyrir aðra dómara ef þörf verður á .
Tvö pör, sem komu til leiks í meistaraflokki undir lok síðustu leiktíðar, verða væntanlega í stærra hlutverki í vetur. Er þar um að ræða Harald Þorvarðarson, fyrrverandi atvinnumann í handknattleik, og Ómar Örn Jónsson, fyrrverandi þjálfari Fylkis annarsvegar og HK-ingana Hákon Bridde og Ólaf Víði Ólafsson. Báðir léku þeir árum saman í efstu deild.
Þrátt fyrir þessi tvö nýlegu pör hefur nýliðun í dómarastétt ekki verið næg á síðustu árum. Af því leiðir að mjög mæðir á dómurunum þegar þéttast er leikið yfir veturinn því þessi tæplega 40 manna hópur dæmir alla leiki sem fram fara í efstu deildunum tveimur.
Árlegum haustfundi dómara varð að tvískipta að þessu sinni vegna samkomutakmarkana og var fundað í gegnum fjarfundarbúnað í gær og í dag. Árleg þrekpróf verða þyngri í vöfum vegna sóttvarnarreglna.
Dómarar leiktíðarinnar verða:
Anton Gylfi Pálsson og Jónas Elíasson
Arnór Jón Sigurðsson og Magnús Ólaf Björnsson
Árni Snær Magnússon og Þorvar Bjarmi Harðarson
Bjarki Bóasson og Gunnar Óli Gústafsson
Bjarni Viggósson og Jón Karl Björnsson
Bóas Börkur Bóasson og Hörður Aðalsteinsson
Ellen Karlsdóttir og Hekla Daðadóttir
Eyþjór Jónsson og Leó Snær Róbertsson
Haraldur Þorvarðarson og Ómar Örn Jónsson
Hákon Bridde og Ólafur Víðir Ólafsson
Heimir Örn Árnason og Magnús Kári Jónsson
Ingvar Guðjónsson og Sigurjón Þórðarson
Jóhann Gunnar Jóhannsson og Sævar Árnason
Ramunas Mikalonis og Þorleifur Árni Björnsson
Sigurður Hjörtur Þrastarson og Svavar Ólafur Pétursson
Sigurgeir M. Sigurgeirsson og Ægir Örn Sigurgeirsson
Stakir eru: Guðbjörn Ólafsson, Ricardo Xavier, Vilbergur Flóvent Sverrisson, Hilmar Ing Jónsson, Patrick Maximilian Rittmüller.
Einnig verður að vanda harðsnúinn hópur eftirlitsmanna á leikjum vetrarins. Þeir eru: Einar Sveinsson, Gísli H. Jóhannsson, Guðjón L. Sigurðsson, Hlynur Leifsson, Kristján Halldórsson, Kristján Gaukur Kristjánsson, Kristín Aðalsteinsdóttir, Ólafur Örn Haraldsson, Reynir Stefánsson, Sigurður Egill Þorvaldsson, Sindri Ólafsson, Valgeir Egill Ómarsson. Allt fólk sem lætur sé ekki allt fyrir brjósti brenna.
Eins og í hópi dómara þá er lítið um að konur séu í hlutverki eftirlitsmanna eins og sést á upptalningunni hér að ofan.