- Auglýsing -
- Örn Vésteinsson Östenberg lék sinn fyrsta leik með Tus N-Lübbecke í gær þegar liðið vann baráttusigur á Konstanz á útivelli, 26:25, í þýsku 2. deildinni í handknattleik. Örn gekk til liðs við Tus N-Lübbecke rétt fyrir jólin. Hann skoraði ekki mark í leiknum í gær en fékk nasaþefinn af því að leika fyrir liðið. Konstanz var tveimur mörkum yfir, 25:23, þegar fimm mínútur voru til leiksloka. Tus N-Lübbecke er í öðru til fjórða sæti deildarinnar með 25 stig eftir 18 leiki eins og Eisenach og Dessauer.
- U19 ára landslið Íslands í handknattleik karla hefur keppni á Sparkassen cup mótinu í Merzig í dag. Fyrsti leikurinn verður við landslið Egyptalands og verður flautað til leiks klukkan 16.10 að íslenskum tíma. Hægt verður að fylgjast með streymi frá leiknum gegn vægu gjaldi á eftirfarandi slóð: https://solidsport.com/sparkassencup-merzig
- Norski markvörðurinn, Emil Kheri Imsgaard, og samherji Orra Freys Þorkelssonar hjá norska meistaraliðinu Elverum, hefur samið við ungverska meistaraliðið Pick Szeged frá og með næsta sumri. Hann kemur í stað Króatans, Mirko Alilovic, sem óvíst er hvað tekur sér næst fyrir hendur.
- Tékkneska landsliðskonan Marketa Jerabkova kveður Evrópu- og Noregsmeistarar Vipers Kristiansand í lok leiktíðar og gengur til liðs við danska úrvalsdeildarliðið Ikast. Jerabkova hefur þá lokið við að uppfylla tveggja ára samning við Vipers. Hún hefur bundið sig til þriggja ára hjá Ikast.
- Auglýsing -