Eftir langan og strangan dag eru Íslendingarnir komnir í hús í Kaíró í Egyptalandi. Þeir sem aðalmáli skipta í okkar augum þessa daga, leikmenn íslenska landsliðsins, þjálfarar og starfsmenn, geta frá og með þriðjudeginum tekið upp þráðinn við að einbeita sér að því sem framundan er. Fyrsti leikur á HM verður á fimmtudaginn þegar leikmönnum portúgalska landsliðsins, sem ferðaðist með íslenska hópnum í dag til Egyptalands, verður boðið upp í þriðja dansinn á nærri viku.
Neðanritaður er einn þriggja íslenskra fjölmiðlamanna sem treysti sér til þess að fylgja íslenska liðinu hingað út. Þegar þetta er ritað er ég nýkominn inn á glæsihótel fimm klukkustundum eftir að lent var á Kaíróflugvelli. Allt tók sinn tíma. Fyrst ríflega þrír tímar sem fór að mestu í bið ásamt hópi danska fjölmiðlamanna sem kom með sömu flugvél frá Kastrup.
Reyndar er ómögulegt að segja af hverju biðin var svo löng því ekki var biðin eftir covid-prófinu óhreyrilega löng. Sennilega var það farangurinn sem stóð í Egyptunum en af því að fjölmiðlamenn eru á leið í búbblu eins og leikmenn þá fengum við sérstaka afgreiðslu vegna þess við komuna. M.a. var okkur ekið óralanga leið frá flugvélinni og að tollhliði, sennilega heilan hring í kringum flugstöðina. Verst að ekkert sást vegna myrkurs. Þess vegna hefðum við getað farið framhjá píramídunum.
Egyptar hafa gaman að því að skrifa hjá sér og safna upplýsingum um þá sem koma til landsins. Öll þessi skriffinska er seinleg en loksins þegar henni linnir þá eru þeir kurteisin uppmáluð. Reynsla mín eftir nokkrar klukkustundir er að allir eru af vilja gerðir og þá langar að gera vel. Hvort það tekst þegar upp verður staðið verða næstu dagar að skera úr um.
Þegar greiddist úr flækjum og bið á flugvellinum tók við rekistefna um flutninga á fjölmiðlamönnum á tvö hótel. Áfram var mikið skrifað niður á allskyns miða, fólki bent út og suður. Vegna veirunnar má ekki flytja marga saman í bíl frá flugvelli að hóteli. Við Íslendingarnir þrír vorum í smárútu með spænskum sjónvarpsmannni sem var á leið á sama hótel. Fyrst þurfti reyndar að rýma bílinn vegna þess að flokkur danska fjölmiðlamanna hafði lagt hann undir sig og lítt gætt að fjarlægðamörkum.
Loks var lagt af stað í og ekið greitt í lögreglufylgd með bláum blikkljósum. Allt leit afar traustvekjandi út framan af. Eftir um hálftíma akstur kárnaði gamanið. Tekin var röng beygja og við tók 45 mínútna akstur á malarvegi sem var óupplýstur en virtist í uppbyggingu. Vegurinn minnti helst á ófærurnar á þjóðveginu á Barðaströnd. Ekki bætti úr skák að lögreglubíllinn var sífellt að stanza og snúa við. Okkar bílstjóra þótti gamanið heldur verið farið að kárna átti til að senda löggæslunni tóninn. Þegar á leið ferðina og ljóst að lögreglan vissi ekki sitt rjúkandi ráð á Barðastandaveginum töldum við víst að lögreglumennirnir góðkunnu Geir og Grani væru þar við stjórn.
Eftir talsvert marga útúrdúra, u-beygjur og vangaveltur þá hafðist að ramba á hótelið þar sem fyrir utan beið brynvarinn bíll þar sem hermaður með hríðskotabyssu rak upp haus sinn og vopn upp úr þakinu, annar frakkaklæddur herramaður og sá þriðji sem ráfaði bara um og skildi að því er virtist hvorki í þennan heim né annan. Enn voru teknir punktar niður á blað og mikið skrafað áður en okkur var hleypt inn í hótelgarðinn og að afgreiðslunni.
Eftir hitapróf og vopnaleit var okkur úthlutað herbergi á hótelinu sem er eins og fyrr segir í alla staði glæsilegt. Ungt fólk hjólaði nánast í kringum okkur Íslendingana meðan það greiddi úr spurningum okkar. Eftir að ég kom inn á herbergi frétti ég að fatataskan mín hafði fundist fyrir tilviljun á allt öðrum stað á hótelinu en lofað hafði verið að koma henni beint til mín eftir að hún hafði fengið yfir sig sturtubað af sótthreinsiefnum.
Út af herberginu má ég ekki fara fyrr en niðurstaða af covidprófinu af flugvellinum liggur fyrir. Meðan sit ég bara og held áfram að klóra í bakkann hér á handbolti.is. Það er nóg við að vera. En ljóst er af fyrstu kynnum hér að menn og konur eru öll af vilja gerð til að taka vel á móti þeim fáu gestum sem kom til þessa 27. heimsmeistaramóts karla í handknattleik.
Sjáum til hvað tekur við þegar alvaran færist út á handboltavöllinn.
Ívar Benediktsson, [email protected]