Leikmenn landsliðs Norður-Makedóníu bíða í rásblokkunum eftir skipun um að leggja fyrirvaralaust af stað til Egyptalands og hlaupa í skarðið sem varaþjóð á heimsmeistaramótinu í handknattleik karla. Eftir fregnir síðustu daga um smit í hópum landsliða sem ætla að taka þátt eru Norður-Makedóníumenn nánast búnir að pakka niður í töskur en þeir eru fyrsta varaþjóð. Þeir segja ekkert smit vera innan sinna herbúða. Þeir bíða aðeins eftir símtali frá stjórnendum heimsmeistaramótsins og Alþjóða handknattleikssambandsins.
Landslið Sviss er önnur varaþjóð inn á HM. Vitað er að IHF og mótsstjórnendur fylgjast grannt með stöðunni í kringum landslið Bandaríkjanna, þar sem helmingur af 30 manna leikmannahópi greindist smitaður í gærkvöld auk þriggja starfsmanna. Von var á 12 leikmönnum Bandaríkjanna án þjálfara til Kaíró í dag. Þar fara þeir í skimun. Eins eru sjö leikmenn Grænhöfðaeyja smitaðir til viðbótar sem og hefur ástandið hjá Tékkum alls ekki verið gott. Þá hefur grisjast úr sænska landsliðshópnum og hann meira og minna verið í sóttkví síðan í liðinni viku.
„Við erum tilbúnir í slaginn og fylgjumst vel með framvindunni og getum stokkið upp í flugvél með skömmum fyrirvara,“ segir Danilo Brestovac, landsliðsþjálfari Norður-Makedóníu við Ekipa.mk.