- Auglýsing -
Tékkneska landsliðið hefur dregið sig úr keppni á heimsmeistaramótinu í handknattleik sem hefst á morgun. Tékkneska handknattleikssambandið tilkynnti þetta fyrir stundu með fréttilkynningu. Ákvörðun um að draga sig úr keppni var tekin eftir aðeins fjórir leikmenn í æfingahópnum reyndust neikvæðir við skimun fyrir brottförum til Kaíró.
Ekki hefur verið staðfest enn, en leiða má líkum að því, að Norður-Makdóníumenn taki sæti Tékka.
Kórónuveiran hefur leikið landslið Tékka grátt síðustu daga. Báðir þjálfarar liðsins veiktust og átta leikmenn greindust smitaðir við skimun við komuna til Færeyja vegna leiks í undankeppni EM í síðustu viku. Fleiri hafa smitast og tóku forráðamenn tékkneska sambandsins ákvörðun um að leggja árar í bát. Báðir þjálfararnir auk aðstoðarþjálfara voru í þeim hóp sem fékk rauða spjaldið eftir lokaskimun fyrir Egyptalandsför.
Tékkar áttu að mæta Svíum á fimmtudaginn í fyrstu umferð en einnig áttu þeir að leika við Egypta og Chilebúa.
- Auglýsing -