- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Titilvörnin hófst á stórsigri í Malmö

Danska landsliðið stóð undir væntingum landa sinna sem fjölmenntu í Malmö Arena í kvöld. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Heimsmeistarar Dana hófu titilvörnina á heimsmeistaramótinu í handknattleik af krafti í kvöld. Þeir unnu Belga með 15 marka mun, 43:28, í Malmö Arena H-riðli. Danir hafa þar með unnið 20 leiki í röð á heimsmeistaramóti og er fimm leikjum frá að jafna met franska landsliðsins sem hafði betur í 25 leikjum á þremur heimsmeistaramótum frá 2015 til 2019.

Danska landsliðið fór upp fyrir Rússa með sigrinum í kvöld. Rússneska landsliðið vann 19 leiki í röð á HM frá 1995 til 1999. Svíar léku það eftir frá 1999 til 2003.

Geta bætt metið átta liða úrslitum

Ef danska landsliðið heldur áfram sigurgöngu sinni í riðlakeppninni þá gæti það hugsanlega ráðist á viðureign í átta liða úrslitum hvort það bætir með Frakka. Ekki er útilokað að Danir mæti Íslendingum eða Svíum í átta liða úrslitum.

Danir freista þess nú að verða fyrstir til þess að vinna HM þrisvar í röð.


Belgar, sem eru að taka þátt í HM karla í fyrsta sinn, náðu aldrei að standa að ráði í heimsmeisturunum sem fengu frábæran stuðning frá þúsund danskra stuðningsmanna sem gerðu sér ferð yfir Eyrarsundið til þess að hvetja sína menn til dáða.

Bartosz Kedziora sækir að dönsku vörninni. Mynd/EPA


Belgar reyndu hvað þeir gátu framan af leiknum til þess að velgja Dönum undir uggum en þegar á leið fyrri hálfleik þá jókst munurinn jafnt og þétt. Í síðari hálfleik virtist vera um formsatriði að ræða fyrir sterkt danskt landslið að tryggja sér sigurinn. Belgíska liðið hefur á stundum vegnað vel með því að leika sjö á sex. Þeim varð ekki kápan úr því klæðinu gegn Dönum sem höfðu ráð undir hverju rifi.


Mikkel Hansen skoraði 10 mörk fyrir danska liðið og Mathias Gidsel var næstur með níu mörk. Pierre Brixhe var markahæstur í belgíska liðinu með fimm mörk.

Dönum virtist lítið muna um að vera án Rasmus Lauge sem var utan liðsins í dag vegna meiðsla sem hann varð fyrir á æfingu í gær.


Fyrr í kvöld skildu Barein og Túnis jöfn í H-riðli, 27:27, eins og sagt er frá hér.

Ali Zein og félagar í egypska landsliðinu voru að vonum kátir eftir stórsigur á Króötum. Mynd/EPA

Egyptar eru engin lömb að leika við

Egyptar tóku Króata í kennslustund í Jönköping, 31:22. Lengi vel stóð ekki steinn yfir steini hjá Króötum gegn sterkum Egyptum sem geta orðið mótherjar Íslendinga í milliriðlum gangi vonir eftir. Ljóst var á leiknum í kvöld að Egyptar verða engin lömb að leika við á þessu móti fremur en á HM fyrir tveimur árum.


Serbía vann öruggan sigur á Alsír, 36:27, og fór upp að hlið Þýskalands í E-riðli.


Norðmenn voru ekki í erfiðleikum með Norður Makedóníumenn, 39:27, í Kraká. Sander Sagosen skoraði sex mörk fyrir Noreg, Kevin Gulliksen og Sebastian Bartold voru næstir með fimm mörk hvor. Filip Taleski skoraði sjö mörk og Dejan Manaskov skoraði fimm mörk. Kostadin Petrov línumaður Þórs á Akureyri skoraði fjögur mörk.


Úrslit, staðan í riðlum og næstu leikir á HM.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -