- Auglýsing -
- Auglýsing -

Engin miskunn hjá Króötum – Perkovac tekur við

Hrvoje Horvat hefur misst annað starf sitt á skömmum tíma. Mynd/EPA
- Auglýsing -

Goran Perkovac hefur verið ráðinn þjálfari króatíska karlalandsliðsins í handknattleik. Forveri hans Hrvoje Horvat var látinn taka pokann sinn en óánægja ríkir með árangur króatíska landsliðsins á HM. Stefnan var sett á að komast í átta liða úrslit, hið minnsta. Niðurstaðan reyndist níunda sæti. Auk Horvat var öllu samstarfsfólki hans gert að taka hatt sinn og staf, þar á meðal Ivano Balic aðstoðarþjálfara sem er einn dáðasti handknattleiksmaður Króata.

Losuðu sig líka við Cervar

Stjórn króatíska handknattleikssambandsins var sammála um að víkja Horvat frá störfum nú þegar. Hún lét ekki þar við sitja heldur leysti einnig Lino Cervar íþróttastjóra sambandsins frá störfum. Cervar hefur þótt frekur til fjörsins.

Horvat tók við þjálfun landsliðsins af Lino Cervar fyrir tveimur árum eftir að hafa verið aðstoðarþjálfari um skeið.

Þótti valtur í sessi

Horvat þótt valtur í sessi áður en heimsmeistaramótinu lauk. Hann var harðlega gagnrýndur, ekki síst fyrir slakan varnarleik Króata á mótinu. Þá þótti framkoma hans í viðtali í mótslok lýsa óvirðingu sem væri ekki sæmandi landsliðsþjálfara.

Silfurhafi frá HM 1995

Perkovac er sextugur og var í sigurliði Króata í handknattleikskeppni Ólympíuleikanna í Atlanta 1996. Hann átti einnig sæti í silfurliðinu á HM á Íslandi 1995. Síðustu ár hefur Perkovac þjálfað utan heimalandsins, einkum í Sviss en einnig í Þýskalandi. Hann var þjálfari karlalandsliðs Sviss frá 2008 til 2013 og var einnig með gríska karlalandsliðið um skeið síðla á fyrsta áratug aldarinnar.


Horvat mælir ekki göturnar á næstunni þrátt fyrir uppsagnarbréfið hjá króatíska handknattleikssambandinu. Hann tók við þjálfun þýska karlaliðsins Wetzlar í byrjun desember. Undir stjórn Horvat rær Wetzlarliðið lífróður fyrir áframhaldandi tilverurétti í þýsku 1. deildinni.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -