Leikur Fram og ÍBV í Olísdeild kvenna sem frestað var í gær fór fram í Safamýri í dag og náði Fram að merja fram eins marks sigur, 26:25, eftir að hafa verið undir 14:13 að loknum fyrri hálfleik. Valur og Fram eru þar með efst með sex stig eftir fjórðu umferðina en ÍBV er stigi á eftir. Þetta var fyrsta tap ÍBV í deildinni og þar með hafa öll liðin átta tapað að minnsta kosti einum leik.
Bæði lið mættu til leiks með nýja leikmenn, Stella Sigurðardóttir tók skóna af hillunni frægu á dögunum og ÍBV samdi við Linu Cardell örvhentan hornamann sem kom frá sænska liðinu Savehof.
Fram hóf leikinn á 3-3 vörn en Eyjastúlkur létu það ekki trufla sig og skoruðu fyrstu 2 mörkin í leiknum og eftir aðeins þriggja mínútna leik bökkuðu heimastúlkur niður í hefðbundna 6-0 vörn. Eftir um tíu mínútna leik jafnaðist leikurinn en Eyjaliðið hafði þó ávallt frumkvæðið en gestirnir fóru með eins marks forystu í hálfleikinn, 13-12.
Það var greinilegt að Sigurður Bragason þjálfari liðsins hafði lagt upp fyrir sína leikmenn að vera fljótar að skila sér tilbaka til þess að stöðva eitt helsta vopn Fram, hraðaupphlaupin, en það upplegg gekk upp þar sem Fram fékk aðeins tvö hraðaupphlaup í fyrri hálfleik. Eins var uppsettur sóknarleikur aðeins að stríða leikmönnum Fram þar sem Ragnheiður Júlíusdóttir sá nánast ein um að skjóta á markið. Hún skoraði 8 af þeim 13 mörkum sem Fram gerði í fyrri hálfleik.
Stefán Arnarsson þjálfari Fram ákvað að breyta yfir í 5+1 vörn á Sunnu Jónsdóttur í seinni hálfleik og við það riðlaðist sóknarleikur ÍBV töluvert og eftir um sjö mínútna leik voru Fram búnar að breyta stöðunni í 18-15 sér í hag. Fram hélt frumkvæðinu í leiknum áfram en þegar um fjórar mínútur voru eftir af leiknum náðu ÍBV að jafna 25-25.
Þegar sex sekúndur voru eftir af leiknum var Fram einu marki yfir, 26-25. Þá tók Sigurður Bragson, þjálfari ÍBV, leikhlé og úr varð að ÍBV fékk aukakast þegar leiktíminn var liðinn þar sem Birna Berg freistaði þess að ná jafna metin. Hávörn Fram varði skotið og því var eins marks sigur Fram staðreynd, 26-25.
Ragnheiður Júlíusdóttir var atkvæðamest í liði Fram með 13 mörk en hjá ÍBV var það Sunna Jónsdóttir sem skoraði 7 mörk.
Fram 26-25 ÍBV (13-14)
Mörk Fram: Ragnheiður Júlíusdóttir 13, Steinunn Björnsdóttir 4, Lena Margrét Valdimarsdóttir 4, Unnur Ómarsdóttir 2, Karen Knútsdóttir 1, Karólína Bæhrenz 1, Kristrún Steinþórsdóttir 1.
Varin skot: Sara Sif Helgadóttir 2, Katrín Ósk Magnúsdóttir 2.
Mörk ÍBV: Sunna Jónsdóttir 7, Ásta Björt Júlíusdóttir 5, Ester Óskarsdóttir 3, Lina Cardell 3, Birna Berg Haraldsdóttir 3, Kristrún Hlynsdóttir 1, Bríet Ómarsdóttir 1, Elísa Elíasdóttir 1, Harpa Valey Gylfadóttir 1.
Varin skot: Marta Wawrzynkowska 12, Darija Zecevic 2.