„Þetta var góður sigur hjá okkur að mínu mati. Sóknarleikurinn var frábær en við fórum líka með aragrúa af opnum færum enda er Stjarnan með frábæran markvörð. Við vorum sjálfum okkur verst. Tækifærin voru fyrir hendi að gera fyrr út um leikinn í stað þess að lenda í spennuleik undir lokin,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson þjálfari kvennaliðs Vals eftir sigur á Stjörnunni, 30:29, í 19. umferð Olísdeildar kvenna í handknattleik í Origohöllinni í dag.
Kæruleysi á köflum
„Á köflum var eins það væri kæruleysi í lekmönnum mínum. Leikmenn gerðu sig seka um mistök í vörninni sem þeir gera venjulega ekki og síðan slúttum við á tíðum illa sem er hættulegur leikur gegn jafn öflugu liði og Stjarnan er með,“ sagði Ágúst Þór sem getur glaðst yfir að annað sætið er að minnsta kosti í höfn. Þar með er víst að Valur situr yfir í fyrstu umferð úrslitakeppninnar.
Gefur sæti í undanúrslitum
„Þú hrifsar ekki annað sæti af mér,“ sagði Ágúst Þór glaður í bragði þegar hann var minntur á þann áfanga.
„Annað sæti gefur sæti í undanúrslitum í úrslitakeppninni. Það er gott skref í áttina að því markmiði sem við stefnum á. Næst er að taka góða hvíld á morgun áður en undirbúningur okkar hefst fyrir undanúrslitaleik við Hauka í bikarnum á miðvikudaginn,“ sagði Ágúst Þór sem verður í eldlínunni á hliðarlínunni með íslenska karlalandsliðinu á morgun gegn Tékkum í Laugardalshöll.