„Við gerðum það sem þurfti. Eins og ég sagði fyrir leikinn þá ætluðum við að fara vel yfir það sem betur mátti fara og okkur tókst að laga það allt saman og gott betur. Frábær varnarleikur og stórkostleg markvarsla auk þess að sýna fínan leik í sókninni,“ sagði stoltur fyrirliði íslenska landsliðsins, Aron Pálmarsson, þegar handbolti.is náði af honum tali eftir níu marka sigurinn á Tékkum í Laugardalshöll í dag, 28:19.
„Við fórum mjög vel yfir það fyrir leikinn og enn betur í hálfleik að þolinmæði í vörninni væri mikilvæg. Við vissum að þannig myndum við brjóta Tékkana á bak aftur. Allt gekk þetta eftir og sigurinn var svo sannarlega verðskuldaður og sanngjarn,“ sagði fyrirliðinn ennfremur.
Ekkert betra en Höllin
„Það er magnað að koma aftur í Laugardalshöllina. Ekkert er betra en að spila í Höllinni í þessari stemningu. Ég er bæði þakklátur og meyr enda eru örugglega komin þrjú ár síðan við spiluðum síðast í Höllinni fyrir framan okkar stuðningsmenn. Þetta er það skemmtilegasta sem ég geri, það er að leika fyrir framan fulla Höll,“ sagði Aron Pálmarsson fyrirliði íslenska landsliðsins.
Næsti landsleikur í Laugardalshöll verður í lok apríl við landslið Eistlands í undankeppni EM.