Hornamaðurinn eldfljóti Gauti Gunnarsson snýr aftur heim til Vestmannaeyja að leiktíðinni lokinni eftir eins árs dvöl hjá KA. Handknattleiksdeild ÍBV tilkynnti fyrir stundu að hún hafi samið við Gauta til tveggja ára og að piltur snúi heim í sumar eftir að hafa lokið skyldum sínum á Akureyri.
Gauti, sem leikið hefur með yngri landsliðum Íslands, hefur skorað 76 mörk í 18 leikjum með KA á leiktíðinni í Olísdeildinni.
„Við erum afar ánægð með að fá Gauta aftur heim til ÍBV og hlökkum til samstarfsins,“ segir í tilkynningu sem barst frá handknattleiksdeild ÍBV fyrir stundu.
Þetta myndskeið birti ÍBV síðdegis og varð til þess að talsverð kátína var á meðal stuðningsmanna enda ævinlega gleðiefni þegar menn snúa heim.