„Ég er ánægð með þessa ákvörðun eftir að hafa velt henni fyrir mér fram og til baka um tíma. Sem sagt hvort ég ætti að vera eða að taka öðrum tilboðum í Þýskaland og breyta til,“ sagði Díana Dögg Magnúsdóttir landsliðskona í handknattleik við handbolta.is eftir að hún framlengdi samning sinn við þýska efstu deildarliðið BSV Sachsen Zwickau til eins árs, út leiktíðina vorið 2024.
Díana Dögg gekk til liðs við BSV Sachsen Zwickau sumarið 2020 eftir fimm ára veru hjá Val. Hún er Eyjakona að upplagi og steig sín fyrstu skref í meistaraflokki með ÍBV. Var reyndar einnig í knattspyrnu og þótt ekki síður lofandi í þeirri íþrótt.
Tók við sem fyrirliði
Díana Dögg, sem er 25 ára, tók við fyrirliðahlutverkinu hjá BSV Sachsen Zwickau í haust. Hún er í 23. sæti yfir markahæstu leikmenn deildarinnar með 73 mörk, 4,6 mörk að jafnaði í leik. Díana Dögg er í 22. sæti yfir leikmenn deildarinnar sem átt hafa flestar stoðsendingar.
Með mörg járn í eldinum
Samhliða handknattleik og dagvinnu leggur Díana Dögg stund á meistaranám í flugvéla- og eldflaugaverkfræði (Luft- und Raumfahrttechnik).
Tveir mikilvægir leikir á næstu dögum
BSV Sachsen Zwickau vann sér sæti í efstu deild þýska handknattleiksins vorið 2021 eftir aldarfjórðungsfjarveru og slapp naumlega við fall fyrir ári eftir umspil. Sem stendur er BSV Sachsen Zwickau í 11. sæti af 14 liðum. Framundan er leikur við Union Halle-Neustadt á laugardaginn. Halle-Neustadt er stigi og sæti fyrir neðan Zwickau-liðið og er þar af leiðandi um afar mikilvægan leik að ræða. Fimm dögum síðar sækja Díana Dögg og samherjar Bayer Levekusen heim áður en tveggja vikna hlé verður gert á keppni í deildinni vegna leikja í undankeppni HM í fyrri hluta apríl.
Díaa Dögg er í landsliðshópnum sem valinn var í gær og mætir Ungverjum 8. og 12. apríl í umspili um HM-sæti.