Hinn þekkti króatíski handknattleiksþjálfari tilkynnti um uppsögn sína úr starfi landsliðsþjálfara Króatíu eftir að króatíska landsliðið tapaði fyrir Argentínu í milliriðlakeppni heimsmeistaramótsins í handknattleik. Cervar, sem stendur á sjötugu, hefur stýrt landsliði Króata í tæp fjögur ár að þessu sinni. Hann var einnig landsliðsþjálfari Króata frá 2002 til 2010 auk þess að vera landsliðsþjálfari Norður-Makedóníu um nokkurra ára skeið.
Cervar varð svo um tapið fyrir Argentínu, 23:19, í kvöld að hann sagði frá starfslokum sínum í beinni útsendingu strax eftir að flautað var til leiksloka. Fjölmiðlafulltrúi króatíska handknattleikssambandsins greindi frá því nokkru síðar að lengi hafi staðið til að Cervar hætti að loknu HM, sama hver árangurinn yrði. Cervar stýrir liðinu HM á enda.
Þetta eru ekki fyrstu óvæntu úrslit Króata á mótinu. Þeir sluppu með skrekkinn gegn Degi Sigurðssyni og lærisveinum í japanska landsliðinu í riðlakeppinni. Máttu teljast heppnir að ná öðru stiginu úr þeirri viðureign.
Þrátt fyrir tapið í kvöld þá eiga Króatar enn möguleika á sæti í átta liða úrslitum. Til þess verða þeir að vinna heimsmeistara Dana á mánudagskvöld og Argentína að tapa fyrir Katar. Sú viðureign verður fyrr á dagskrá á mánudaginn þannig að Króatar vita þegar þeir ganga út á leikvöllinn gegn Dönum hvort þeir verða að vinna eða ekki.
Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Argentínumenn vinna króatíska landsliðið undir stjórn Cervar. Þeim tókst það einnig í fyrstu umferð riðlakeppni HM 2003. Það var eini tapleikur Króata á mótinu. Þeir urðu þá heimsmeistarar í handknattleik í fyrsta og eina skiptið til þessa.