Sólveig Lára Kjærnested hefur samið um að halda áfram þjálfun meistaraflokks liðs ÍR í kvennaflokki. Hún tók við þjálfun liðsins á síðasta sumri og „hefur reynst félaginu mikill happafengur,“ eins og segir orðrétt í tilkynningu frá ÍR.
Undir stjórn Sólveigar Láru er ÍR komið í úrslit í umspili um sæti í Olísdeildinni gegn Selfossi. Fyrsti leikurinn verður á miðvikudagskvöld.
ÍR hafnaði í öðru sæti Grill66-deildarinnar í vetur eftir að hafa verið í hörkukeppni við Aftureldingu sem hafði naumlega betur á endasprettinum. Í framhaldinu vann ÍR lið Gróttu í undanúrslitum umspilsins í oddaleik.
Sólveig Lára hefur ekki látið sér það nægja að þjálfa ÍR-liðið heldur hefur hún leikið með því í undanförum leikjum og þannig miðlað af viðamikilli reynslu sinni sem leikmaður.
Samhliða þjálfun meistaraflokks hefur Sólveig Lára einnig komið að þjálfun yngri flokka
„Það er algjört lykilatriði fyrir okkur ÍR-inga að hafa tryggt okkur krafta Sollu á næsta tímabili,“ segir í tilkynningu handknattleiksdeildar ÍR í kvöld.