„Við erum gríðarlega ánægðir með sigurinn og fagmennskuna hjá strákunum, hvernig þeir komu inn í leikinn,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson annar þjálfari karlalandsliðsins í handknattleik þegar handbolti.is náði stuttlega að heyra í honum hljóðið eftir sigurinn á Ísraelsmönnum í Tel Aviv, 37:26, í undankeppni EM í handknattleik.
Sigur liðsheildarinnar
„Við vorum í smá brasi með varnarleikinn á fyrstu tíu mínútunum. En eftir að vörninn jafnaði sig þá var hún mjög þétt og fyrir vikið fengum við talsvert af mörkum eftir hraðaupphlaup. Til viðbótar var Viktor Gísli mjög góður í markinu. Auk þess var sóknarleikurinn fínn og gott flæði á boltanum. Margir lögðu í púkkið, eins og við segjum. Um var að ræða sigur liðsheildar og frammistaðan mjög góð,“ sagði Ágúst Þór.
Byrjuðum síðari hálfleik af krafti
Eftir hafa verið með átta marka forskot í hálfleik, 19:11, þá byrjaði íslenska liðið af miklum krafti í þeim seinni. Forystan var fljótlega komin upp í 12 mörk. Þar með komust Ísraelsmenn aldrei á bragðið. Ágúst Þór sagði að rík áhersla hafi verið lögð á það í hálfleikshléinu að slá ekki af.
„Við brýndum fyrir strákunum að byrja síðari hálfleik af miklum krafti og ná þannig að drepa leikinn. Ekki gefa Ísraelsmönnum færi á koma með áhlaup. Það tókst.“
Hlökkum til sunnudagsins
Á sunnudaginn leikur íslenska landsliðið síðasta leik sinn í undankeppninnni, gegn Eistlendingum í Laugardalshöll.
„Eins og komið hefur fram þá ætlum við okkur að vinna riðilinn og þess vegna kemur ekkert annað til greina en sigur á sunnudaginn. Á þeim skamma tíma sem höfum munum við búa okkur vel undir leikinn og verðum klárir í slaginn fyrir framan fulla Laugardalshöll á sunnudaginn. Við hlökkum til og ætlum að ná öðrum góðum leik á heimavelli,“ sagði Ágúst Þór Jóhannsson og var þar með stokkinn upp í rútu sem flutti landsliðið frá keppnishöllinni að hótelinu í Tel Aviv.