- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Mætum með sjálfstraust tilbúnar í næsta stríð

Sólveig Lára Kjærnested þjálfari ÍR. Mynd/ÍR
- Auglýsing -

„Þetta er mjög skemmtilegt og um leið brjálæðislega lærdómsríkt fyrir mínar stelpur. Reynslan sem þær fá út úr þessum leikjum er mjög mikil,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested þjálfari ÍR við handbolta.is í dag eftir annan sigur ÍR-inga á Selfossi í umspili Olísdeildar kvenna í Skógarseli í Breiðholti í dag, 29:28, að lokinni framlengingu. Þar með hefur ÍR, sem lék í Grill 66-deildinni í vetur, náð í tvo fyrstu vinningana í einvíginu. Selfossliðið er ennþá tómhent.

Erum bara í Grillinu

„Við renndum blint í sjóinn í fyrsta leiknum þar sem við höfðum aldrei áður mætt Selfoss-liðinu. Undirbúningurinn fyrir leikinn var mjög góður. Útkoman var í samræmi við það, frábær leikur hjá okkur.

Í dag var pressan öll á Selfossliðinu. Selfoss er í Olísdeildinn en við erum bara í Grillinu. Markmið okkar var fyrst og fremst að leggja allt í leikinn, gefa Selfossliðinu leik og sýna fram á að sigur okkar á Selfossi á miðvikudaginn hafi ekki verið tilviljun,“ sagði Sólveig Lára sem hefur náð að byggja upp frábæra liðsheild í Skógaseli.

Mikið í mína menn spunnið

„Það er svo mikið spunnið í mína leikmenn. Þær eru góðar í handbolta og þess vegna er svo gaman að sjá þær sýna það leik eftir leik. Fyrir utan að vinna leikinn í dag í framlengingu, standast alla pressuna. Það er frábært,“ sagði Sólveig Lára og bætti við.

Lýsandi dæmi um karakterinn

„Ég er með unga stelpu á miðjunni [Matthildur Lilja Jónsdóttir] sem spólar sig í gegnum vörn Selfoss hvað eftir annað eins og hún hafi ekki gert annað. Hún var á öðrum fætinum eftir að hafa meiðst í byrjun leiksins. Hún er lýsandi dæmi um karakterinn í mínu liði,“ sagði Sólveig Lára sem er afar stolt af sveit sinni.

Komnar með sjálfstraust

Næstu leikur verður í Sethöllinn á Selfossi á miðvikudagskvöld. Þangað fara Sólveig Lára og leikmenn hennar hvergi bangnar.

„Við erum komnar með mikið sjálfstraust eftir tvo sigurleiki. Ég sé ekki ástæðu til annars en að við mætum beinar í baki og kassann úti, tilbúnar í næsta stríð,“ sagði Sólveig Lára Kjærnested þjálfari kvennaliðs ÍR í handknattleik sem hefur svo sannarlega komið mörgum í opna skjöldu með frábærum úrslitum í tveimur fyrstu úrslitaleikjum umspilsins við Olísdeildarlið Selfoss.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -