Færeyska landsliðið í handknattleik karla vann það mikla afrek á dögunum að tryggja sér farseðilinn á Evrópumeistaramótið í handknattleik karla sem fram fer í Þýskalandi á næsta ári. Þetta er fyrsti afraksturinn af miklu uppbyggingarstarfi sem átt hefur séð stað á síðustu árum í handknattleik í Færeyjum.
Aldrei hefur jafn fámenn þjóð unnið sér keppnisrétt í lokakeppni Evrópumóts í einni af helstu boltaíþróttum sem stundaðar eru í Evrópu. Íbúar í Færeyjum eru um 57 þúsund.
Eins og gefur að skilja ríkir mikil eftirvænting meðal Færeyinga vegna þátttökunnar og ekki síður með hvaða landsliðum landslið þeirra dregst í riðil á mótinu. Dregið verður í riðla í Düsseldorf á næsta miðvikudag, 10. maí.
Fréttablaðið Sosialurinn í Þórshöfn leitaði til nokkurra landsliðsmanna og bað þá að nefna óskamótherja.
Sex af átta
Af átta leikmönnum færeyska landsliðsins nefndu sex leikmenn að þeir vildu mæta íslenska landsliðinu, þ.e. telja að það vera besta kostin af sex liðum sem eru í efsta styrkleikaflokki. Meðal þeirra eru hornamaðurinn frábæri, Hákun West af Teigum sem gengur til liðs við Füchse Berlin í sumar og Óli Mittún, einn allra efnilegasti handknattleiksmaður Evrópu um þessar mundir. KA-mennirnir Allan Norðberg og Nicholas Satchwell, sem er reyndar að fara frá KA, eru einnig með íslenska landsliðið á óskalista sínum.
Svipaða sögu er að segja af umræðum á meðal handboltaáhugafólks í Færeyjum sem m.a. má sjá Facebook. Mikill áhugi fyrir að dragast í riðil með íslenska landsliðinu.
Færeyingar verða í fjórða styrkleikaflokki þegar dregið verður en Danmörk, Ísland og Noregi og Svíþjóð verða öll í efsta flokki auk Frakka og Spánverja. Verulegar líkur eru þar með fyrir að Færeyingar dragist á móti einni Norðurlandaþjóð.
Danir frekar en Svíar
Færeysku landsliðsmennirnir nefna einnig Noreg og Danmörku sem óska mótherja en enginn þeirra virðist spenntur fyrir Evrópumeisturum Svía. Pætur Mikkjalsson fyrrverandi leikmaður KA og núverandi leikmaður AMO í Svíþjóð hikar ekki við að nefna heimsmeistara Dani fremur en Svía, svo dæmi sé tekið.