ÍBV og Haukar mætast í oddaleik í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik í Vestmannaeyjum í kvöld. Flautað verður til leiks klukkan 18. Sigurliðið mætir Val í úrslitaleikjum um Íslandsmeistaratitilinn. Fyrsta viðureign verður á föstudagskvöld.
Að undanskildum fyrsta leik ÍBV og Hauka var önnur, þriðja og fjórða viðureign liðanna æsilega spennandi og jafnar. Eyjaliðið var mun betra þegar á leið í fyrsta leiknum og vann örugglega með sjö marka mun 29:22. Haukar svöruðu með sigri eftir framlengingu, 25:24, í öðrum leik sem fram fór á Ásvöllum.
Ekki var spennan minni í þriðja leiknum. Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir tryggði ÍBV sigur, 20:19, á síðustu sekúndum, aðeins fáeinum andartökum eftir að Marta Wawrzynkowska markvörður ÍBV hafði varið vítakast.
Á Ásvöllum á síðasta laugardag varð að grípa til þess að framlengja leikinn, eins og í viðureign tvö á sama stað, nokkrum dögum áður. Á ný voru Haukar sterkari í framlengingu og unnu, 29:26. Staðan var jöfn eftir 60 mínútur, 22:22, sú sama og í öðrum leik að loknum 60 mínútum.
Búast má við rífandi stemningu í Eyjum í kvöld eins og á öðrum leikjum liðanna til þessa. Haukar hyggja á hópferð til Vestmannaeyja. Heimamenn láta aldrei sitt eftir liggja þegar mikið liggur við.
Olísdeild kvenna, undanúrslit, oddaleikur:
Vestmannaeyjar: ÍBV – Haukar, (2:2), kl. 18 – sýndur á Stöð2sport.
Handbolti.is verður með textalýsingu af vettvangi.