„Vörnin var frábær í leiknum og ég er mjög ánægð með að hafa getað hjálpað til,“ sagði Marta Wawrzykowska markvörður ÍBV og maður leiksins í sigrinum á Haukum í oddaleik liðanna í undanúrslitum Olísdeildar kvenna í handknattleik í Vestmannaeyjum í kvöld, 27:23.
Marta varði 19 skot, var með nærri 50% markvörslu. Hún varði m.a. opin færi þegar komið var í framlengingu. Hún vildi sem minnst gera úr eigin frammistöðu, hvorki í þessum leik né á keppnistímabilinu í heild. „Við erum bara með frábært lið mætum til leiks sem ein heild. Handbolti er liðsíþrótt. Ég er fyrst og fremst ánægð með að geta lagt mitt lóð á vogarskálina,“ sagði Marta sem er á sínu fjórða keppnistímabili með ÍBV og hefur aldrei verið betri en í vetur.
Bara eitt sem komst að
ÍBV-liðið hafði tapað tveimur framlengingum í rimmunni við Hauka. Minnugar þess þá kom ekki til greina að tapa þriðju framlengingunni. Marta sagði bara eitt hafa komist að þegar lagt var á ráðin í klefanum fyrir framlenginguna, að vinna.
„Við voru grjótharðar á því þegar kom að framlengingunni að vinna. Það kom ekki til greina að tapa þriðju framlengingunni í þessu einvígi og það fyrir framan okkar frábæru stuðningsmenn í þessari stórkostlegu stemningu. Stuðningsmennirnir eru okkar aukamaður. Þetta var hreinlega stórkostlegt,“ sagði Marta Wawrzykowska markvörður ÍBV í samtali við handbolta.is í Vestmannaeyjum í kvöld.