- Auglýsing -
- Auglýsing -

Harpa Valey í Selfoss og Perla Ruth fer hvergi

Harpa Valey Gylfadóttir hefur ákveðið að ganga til liðs við Selfoss. Mynd/UMFSelfoss
- Auglýsing -

Harpa Valey Gylfadóttir handknattleikskona úr ÍBV hefur ákveðið að ganga til liðs við Selfoss sem leikur í Grill 66-deild kvenna á næstu leiktíð. Handknattleiksdeild Selfoss tilkynnti komu hennar fyrir stundu og staðfesti jafnframt að Perla Ruth Albertsdóttir ætli að standa við fyrra samkomulag við félagið og leika með Selfoss á næstu leiktíð.

Perla Ruth Albertsdóttir klæðist búningi Selfoss á nýjan leik á næsta keppnistímabili. Mynd/UMF Selfoss

Sagt var frá komu Perlu Ruthar til Selfoss í febrúar en óvissa ríkti úr hvorri Keflavíkinni hún ætlaði róa eftir að liðið féll í Grill 66-deildina fyrr í þessum mánuði eftir tap fyrir ÍR í umspili um sæti Olísdeildinni.

Harpa Valey og Perla Ruth hafa samið við Selfoss til þriggja ára.

Halda tryggði við félagið

„Stelpurnar á Selfossi hafa ákveðið að halda tryggð við klúbbinn á komandi tímabili,“ segir í tilkynningu handknattleiksdeildar Selfoss í kvöld þar sem væntanlega er átt við að nær allir leikmenn liðsins sem féll ætli að halda sínu striki þrátt fyrir fall úr Olísdeildinni.

Standa saman þegar gefur á bátinn. Leikmenn meistaraflokksliðs Selfoss. Mynd/UMFSelfoss

Styrkja sterkan hóp

„Ekki þarf að hafa mörg orð um það hversu mikið þær stöllur munu koma til með að styrkja nú þegar sterkan hóp Selfossliðsins. Perla er að snúa aftur á Selfoss eftir góð ár hjá Fram þar sem hún vann til fjölda titla og festi sig endanlega í sessi sem fastamaður í íslenska landsliðinu. Hún er einn af leikja- og markahæstu leikmönnum Selfoss frá upphafi með 457 mörk í 137 leikjum,“ kemur fram í tilkynningu handknattleiksdeildar Selfoss.

Landsliðskona úr Eyjum

Harpa gengur hins vegar til liðs við Selfoss frá ÍBV þar sem hún hefur leikið allan sinn feril, en flytur nú upp á fasta landið til að taka slaginn með Selfoss. Harpa hefur verið í stóru hlutverki í liði ÍBV undanfarin ár og skoraði 71 mark í 25 leikjum fyrir liðið á síðasta tímabili þar sem ÍBV varð bæði deildar- og bikarmeistari. Þá hefur hún einnig leikið með yngri landsliðum Íslands sem og A-landsliðinu.

Mikil gleðiefni

„Það er okkur mikið gleðiefni að þær stelpur sem höfðu tækifæri til að leika í efstu deild á næsta tímabili ætli að halda tryggð við klúbbinn og þessi viðbót mun bara styrkja okkar þegar sterka hóp,“ er haft eftir Eyþóri Lárussyni þjálfara Selfoss í tilkynningu.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -