Lærisveinar Guðmundar Þórðar Guðmundssonar í Fredericia HK knúðu í dag fram oddaleik í rimmunni við Skjern um bronsverðlaunin í dönsku úrvalsdeildinni í handknattleik.
Fredericia HK vann Skjern í Fredericia, 27:25, og svaraði þar með fyrir tap í heimsókn til Skjern á síðasta miðvikudag, 34:23.
Fredericia HK var með þriggja marka forskot að loknum fyrri hálfleik, 13:10.
Einar Þorsteinn Ólafsson skoraði ekki mark fyrir Fredericia í leiknum. Hann átti eina stoðsendingu og var einu sinni vísað af leikvelli.
Oddaleikurinn fer fram í Skjern á laugardaginn.
Síðar í dag mætast GOG og Aalborg Håndbold öðru sinni í úrslitum um danska meistaratitilinn. GOG vann fyrsta leikinn og verður meistari annað árið í röð takist liðinu að vinna viðureignina í dag.