- Auglýsing -
- Telma Lísa Elmarsdóttir hefur skrifað undir nýjan tveggja ára samning við KA/Þór og er nú samningsbundin félaginu út tímabilið 2024-2025. Telma Lísa sem verður 21 árs síðar í mánuðinum lék fyrsta meistaraflokksleikinn veturinn 2018-2019 og hefur undanfarin ár unnið sig upp í stærra og stærra hlutverk í liðinu.
- Daninn Casper Mortensen varð markakóngur þýsku 1. deildarinnar í handknattleik sem lauk í gær. Mortensen, sem leikur með HSV Hamburg, skoraði 234 mörk. Næstur varð þýski landsliðsmaðurinn Juri Knorr, liðsfélagi Ýmis Arnar Gíslasonar hjá Rhein-Neckar Löwen. Knorr skoraði 213 mörk.
- Gísli Þorgeir Kristjánsson varð markahæstur Íslendinga í deildinni með 152 mörk í níunda sæti. Gísli Þorgeir tók þátt í 31 af 34 leikjum SC Magdeburg í deildinni. Viggó Kristjánsson, Leipzig, varð næst markahæstur af Íslendingunum í deildinni. Viggó skorað 135 mörk í 23 leikjum og varð í 25. sæti á lista markahæstu leikmanna.
- Sporting Lissabon, sem Orri Freyr Þorkelsson gengur til liðs við í sumar samkvæmt heimildum handbolta.is, varð í gær portúgalskur bikarmeistari í handknattleik karla. Sporting vann Madeira, 30:29, í hörkuleik í úrslitum. Í fyrradag lagði Sporting meistara Porto, 39:38, í háspennu undanúrslitaleik.
- Henrik Kronborg aðstoðarþjálfari karlalandsliðs Danmerkur í handknattleik karla hefur skrifað undir nýjan samning um að halda áfram störfum fram til ársins 2028. Kronborg hefur verið aðstoðarþjálfari frá árinu 2016 en hann hóf störf við hlið Guðmundar Þórðar Guðmundssonar.
- Chema Rodriguez er hættur þjálfun handknattleiksliðs Benfica í Lissabon eftir þriggja ára starf. Rodriguez er sagður ætla að einbeita sér að þjálfun ungverska karlalandsliðsins. Undir stjórn Rodriguez vann Benfica Evrópudeildina í handknattleik karla fyrir ári. Á nýliðinni leiktíð gekk liðinu ekki sem skildi. Það hafnaði í þriðja sæti í portúgölsku deildinni og féll úr leik í 8-liða úrslitum í Evrópudeildinni.
- Auglýsing -