- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

„Ég geng sáttur frá borði“

Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari Kadetten í Sviss. Mynd/EPA
- Auglýsing -

„Við vorum kannski ekki með jafnsterkt sjö manna lið og HC Kriens en höfum meiri breidd og erum auk þess vanari því álagi sem fylgir að leika marga leiki með skömmu millibili,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson sem stýrði Kadetten Schaffhausen til sigurs í svissnesku úrvalsdeildinni í handknattleik annað árið í röð á dögunum og kvaddi þar með félagið.

Kadetten vann deildarmeistara HC Kriens í úrslitarimmu á sannfærandi hátt, 3:1, í leikjum talið. HC Kriens varð deildarmeistari og var nokkuð á undan Kadetten. „Kriens gerði vel á meðan liðið spilaði bara einn leik í viku en þegar út í úrslitakeppnina var komið þá hafði breiddin í leikmannahópnum hjá okkur mikið að segja, hún skipti sköpum,“ sagði Aðalsteinn en Kadetten vann níu af 10 leikjum sínum á þremur stigum úrslitakeppninnar.

Meistaralið Kadetten Schaffhausen 2023. Aðalsteinn Eyjólfsson þjálfari er annar frá hægri í efstu röð. Óðinn Þór Ríkharðsson annar f.h. í neðstu röð (skeggjaður). Mynd/Kadetten Schaffhausen.

Aðalsteinn kveður Schaffhausen á næstunni eftir þriggja ára veru. Hann kveður sáttur við árangurinn. Tveir meistaratitlar, bikarmeistaratitill og deildarmeistarar auk stigvaxandi framfara í Evrópudeildinni sem lauk með naumu tapi fyrir Füchse Berlin í átta liðar úrslitum í vor.

Tvö ár í uppbyggingu

„Fyrsta árið mitt með Kadetten fór í uppbyggingu. Á öðru árinu uppskárum við og vorum með talsverða yfirburði í deildinni. Fyrir ári varð mikil uppstokkun á liðinu. Sjö eða átta leikmenn fóru og aðrir komu í staðinn. Þar af leiðandi vorum við í talsverðri uppbyggingu á nýjan leik í vetur. Segja má að tímabilið hefði gengið fullkomlega upp ef við hefðum ekki verið dæmdir úr leik í bikarkeppninni og ekki fengið á okkur einn rangan ruðningsdóm í síðari leiknum við Füchse Berlin í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar,“ sagði Aðalsteinn en lið hans féll út á einu marki í átta liða úrslitum Evrópudeildarinnar fyrir liðinu sem vann síðar keppnina.

Tíu ruðningar í leik

Aðalsteinn segir að pottur sér brotinn dómgæslu í stórleikjum í Sviss. Bikarúrslitaleikurinn hafi verið mjög slæmt dæmi. Hans lið hafi bara ekki átt möguleika. Eins hafi þriðji úrslitaleikurinn við HC Kriens var skrautlegur, ekki síst síðustu mínúturnar þegar fimm marka forskot hvarf eins og dögg fyrir sólu eftir röð rangra dóma. „Sá kapall sem þá hófst var skandall,” sagði Aðalsteinn en viðureigninni var ekki lokið fyrr en eftir bráðabana í vítakeppni. „Ég hef aldrei fengið dæmda á mig tíu ruðninga í einum leik,“ sagði Aðalsteinn ómyrkur í máli.

Aðalsteinn Eyjólfsson, þjálfari Kadetten Schaffhausen, fagnar með lærisveinum sínum í kappleik. Mynd/Kadetten Schaffhausen

Stóru markmiðin náðust

„Það kom ekkert annað til greina en að ljúka verunni með öðrum meistaratitli. Þegar litið er til baka þrjú ár þá tel ég að liðið hafi náð öllum stóru markmiðunum sem við settum okkur og kannski eitthvað umfram það. Ég geng sáttur frá borði,“ sagði Aðalsteinn sem fer að pakka búslóðinni niður á næstu dögum eftir að börn hans ljúka námi í lok vikunnar.

Gat brugðið til beggja vona

Aðalsteinn tekur við GWD Minden í næsta efstu deild þýska handknattleiksins en liðið féll úr efstu deild á dögunum. Hann kvíðir ekki þess sem bíður hans í Þýskalandi. Aðalsteinn segir að þegar hann skrifaði undir samning við forráðamenn Minden-liðisins hafi legið fyrir að brugðið gæti til beggja vona.

„Framundan er spennandi verkefni hjá Minden þrátt fyrir að við verðum að taka slaginn í annarri deild. Það er erfið deild sem verður ekki auðvelt að fara upp úr. Minden er með gott fjárhagslegt bakland auk ríkrar hefðar fyrir handbolta svo ég tek óhræddur við þessu spennandi verkefni sem bíður mín hjá félaginu í næsta mánuði þegar ég kem formlega til starfa,“ sagði Aðalsteinn Eyjólfsson handknattleiksþjálfari í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -