„Ég þarf ekki að skýra út hversu alvarlegt það er fyrir handknattleiksmann að fara úr axlarlið. Hvað þá þegar um ræða handlegginn sem kastað er með. Ég býst við langri fjarveru,“ segir Bennet Wiegert þjálfari SC Magdeburg í samtali við handball-world í dag spurður út í meiðsli þau sem Gísli Þorgeir Kristjánsson varð fyrir í undanúrslitaleik Magdeburg og Barcelona í Meistaradeild Evrópu í handknattleik karla í Lanxess Arena í Köln í dag.
Því miður er þetta a.m.k. í þriðja sinn sem Gísli Þorgeir fer úr axlarlið á ferlinum, síðast fyrir tveimur árum.
Ég er miður mín
„Ég er miður mín vegna meiðsla Gísla Þorgeirs en er jafnframt viss um að hann mun koma til baka út á völlinn. Við stöndum þétt við bakið á Gísla. Hann einn framtíðarmanna félagsins,“ sagði Wiegert ennfremur.
Meiðsli Gísla Þorgeir skyggja á gleði SC Magdeburg yfir að hafa náð í úrslit Meistaradeildar í fyrsta sinn í 21 ár með sigrinum á Barcelona í undanúrslitum í dag, 40:39, í maraþonleik þar sem úrslitin réðust í vítakeppni.
Gísli Þorgeir hefur aldrei leikið betur en á keppnistímabilinu sem lýkur á morgun. Því til staðfestingar var hann kjörinn leikmaður ársins í þýskum handknattleik í vikunni.
Hafnfirðingurinn er samningsbundinn SC Magdeburg til ársins 2028.