„Þetta var frábær leikur hjá strákunum frá upphafi og nær því sem vænst var til af strákunum. Þeir sýndu sínar réttu hliðar,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara U21 árs landsliðs karla í handknattleik í samtali við handbolta.is í morgun, daginn eftir að íslenska liðið vann Serba örugga, 32:29, í lokaumferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins.
Sigurinn færði íslenska liðinu tvö stig í nesti til að hafa með inn í milliriðlakeppnina sem hefst á morgun, sunnudag, með viðureign við heimamenn í gríska landsliðinu. Flautað verður til leiks klukkan 14.30.
Frábær varnarleikur
„Varnarleikurinn var frábær í leiknum við Serba. Menn lögðu mikla vinnu og kraft í verkefnið. Við erum gríðarlega ánægðir með strákana. Svona viljum við leika; með öflugan varnarleik og fá hraðaupphlaup. Serbar leika svipaðan handbolta og við viljum leika og þess vegna hentaði það okkur vel að mæta þeim sem skilaði sér í frábærum leik,“ sagði Einar Andri og undirstrikaði að einnig hafi verið um að ræða framfarir í uppstilltum sóknarleik. Fleiri leikmenn hafi stimplað sig inn í mótið.
Eigum fleiri inni
„Nokkrir menn sem við höfum verið að bíða eftir að færu í gang á mótinu komust inn á rétta sporið í gær sem var einkar kærkomið. Við fengum inn tvo til þrjá leikmenn en eigum fleiri inni fyrir næstu viðureignir,“ sagði Einar Andri.
„Breiddin í hópnum er góð. Tólf leikmenn skoruðu mark í leiknum í gær. Það var afar mikilvægt fyrir framhaldið í mótinu að hafa fengið framlag frá sem flestum,“ sagði Einar Andri Einarsson annar þjálfara U21 árs landsliðs karla í samtali við handbolta.is.