Stórleikur verður strax í fyrstu umferð Olísdeildar kvenna laugardaginn 9. september þegar Íslandsmeistarar Vals taka á móti Fram í Origohöllinni. Alltént má lesa það auðveldlega út úr drögum að niðurröðun leikja Olísdeildar kvenna sem Handknattleikssamband Íslands birti á vef sínum eftir hádegið í dag.
Nýliðaslagur í Skógarseli
Nýliðar ÍR eiga heimaleik í fyrstu umferð Olísdeildar. Þeir fá hina nýliðana, Aftureldingu, í heimsókn í Skógarselið. Liðin háðu harða keppni um efsta sætið í Grill 66-deildinni á síðasta keppnistímabili.
Bikar- og deildarmeistarar ÍBV leggja land undir fót og mæta til leiks í KA-heimilið þar sem leikmenn KA/Þór bíða.
Gamlir samherjar mætast
Fjórði leikur í 1. umferð Olísdeildar kvenna verður á milli Stjörnunnar og Hauka en bæði lið verða með nýjan þjálfara við hliðarlínuna, menn sem eitt sinn unnu saman hjá Fram. Um er að ræða Sigurgeir Jónsson þjálfara Stjörnunnar og Stefán Arnarson þjálfara Hauka.
Allir leikir 1. umferðar Olísdeildar kvenna eiga að fara fram laugardaginn 9. september.
Síðustu leikir fyrir HM
Gert er ráð fyrri því í drögunum að niðurröðun leikja Olísdeildar kvenna að tíu umferðum verði lokið þegar gert verður hlé vegna undirbúnings og síðar þátttöku kvennalandsliðsins á heimsmeistaramótinu sem hefst 29. nóvember. Síðasta umferðin fyrir HM er áætluð fimmtudaginn 16. nóvember.
Þráðurinn verður tekinn upp á þrettándanum, 6. janúar 2024.
Tvær af tíu á fimmtudögum
Tvær af tíu umferðum fyrir HM hléið verða leiknar á fimmtudögum, átta á laugardögum. Hin fimmtudagsumferðin fyrir áramót er áætluð 5. október, rétt áður en kvennalandsliðið kemur saman til æfinga leikja í undankeppni Evrópumótsins rétt fyrir miðjan október.
Vonir standa svo til þess að síðasta umferð Olísdeildar kvenna fari fram laugardaginn 23. mars, daginn fyrir pálmasunnudag.
Hægt er að skoða drög að leikjaniðurröðun Olísdeildar kvenna með því að smella hér.