Hinn þrautreyndi handknattleiksmaður og fyrrverandi landsliðsmaður Alexander Petersson hefur óvænt tekið fram keppnisskóna og samið til eins árs við Val.
Félagið greindi frá þessum óvæntu tíðindum fyrir stundu í tilkynningu þar sem segir að Alexander langi til þess að ljúka ferlinum á Íslandi. „Það er heiður fyrir okkur Valsmenn að hann hafi valið félagið okkar sem sinn síðasta áfangastað á glæsilegum ferli,“ segir m.a. í tilkynningunni.
Sannkallaður hvalreki
Tuttugu ár eru liðin síðan Alexander lék síðasta hér á landi og þá með Gróttu/KR. Endurkoma hans á handknattleiksvöllinn er sannkallaður hvalreki, ekki aðeins fyrir Val, heldur einnig fyrir Olísdeildina sem hefst 7. september.
Karlar – helstu félagaskipti 2023
Sextán ár með landsliðinu
Ár er liðið síðan að Alexander hætti keppni eftir að hafa leikið samfleytt í 19 ár með þýsku félagsliðum, síðast MT Melsungen 2021/2022.
Alexander er fyrsti og eini Íslendingurinn sem hefur náð að rjúfa 500 leikja múrinn í „Bundesligunni“. Hann lék 522 leiki með HSG Düsseldorf, TV Großwallstadt, SG Flensburg-Handewitt, Füchse Berlin, Rhein-Neckar Löwen og MT Melsungen.
Alexander lék í 16 ár með íslenska landsliðinu, alls 186 leiki sem hann skoraði í 725 mörk. Hann var m.a. í silfurliðinu á Ólympíuleikunum í Bejing 2008 og bronsliðinu á EM 2010. Sama ár var Alexander kjörinn Íþróttamaður ársins af Samtökum íþróttafréttamanna.
Sigmundur Ó. Steinarsson sagði frá ferli og afrekum Alexanders í grein á handbolti.is fyrir um ári.