- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

​​​​​Alexander Petersson í sögubækurnar!

Alexander Petersson er hættur eftir nítján keppnistímabil í Þýskalandi. Mynd/EPA
- Auglýsing -

 Alexander Petersson er fyrsti og eini Íslendingurinn sem hefur náð að rjúfa 500 leikja múrinn í „Bundesligunni“ en hann lék 522 leiki á 18 keppnistímabilum í deildinni. Alexander, sem lék kveðjuleik sinn í Þýskalandi í Lemgo á dögunum, hóf að leika í Þýskalandi 2003-2004 með Düsseldorf í 2. deild, suðurriðli. Hann varð strax lykilmaður í liðinu, sem tryggði sér sæti í „Bundesligunni“. Alexander var þá valinn í úrvalslið suðurriðilsins sem mætti úrvalsliði norðurriðilsins. Alls hafa 88 Íslendingar leikið með 47 liðum í „Bundesligunni“ á árunum 1977-2022. Tveir nýliðar bætast í hópinn þegar keppnin hefst í haust; tímabilið 2022-2023. Það eru þeir Elliði Snær Viðarsson og Hákon Daði Styrmisson, sem eru leikmenn Gummersbach undir stjórn Guðjóns Vals Sigurðssonar, sem lék fimmtán tímabil í deildinni með fjórum liðum; Essen, Gummersbach, Rhein-Neckar Löwen og Kiel. Þá er ekki hægt að útiloka að aðrir íslenskir leikmenn fari til Þýskalands.

 Íslendingar hafa leikið mest með liðum frá Mið-Þýskalandi og hafa verið góðir starfskraftar. Hvers vegna? Gefum Horst Bredemeier, fyrrum þjálfara þýska landsliðsins, Dankersen, Lemgo og Düsseldorf orðið: „Íslendingar leggja mikið á sig og eru duglegir og vinnusamir. Það er gott fyrir þjálfara að hafa þá. Þeir eru til fyrirmyndar í því sem þeir taka sér fyrir hendur. Aldrei vandræði í kringum þá og ganga með miklum krafti í verkefni sín.“

Í góðum félagsskap

 Alexander var í góðra leikmanna hópi þegar sagt var frá því á dögunum að hann væri á listanum yfir leikmenn, sem hafa leikið yfir 500 leiki í „Bundesligunni“.

Alexander Petersson. Anders Dahl-Nielsen, danski leikmaðurinn og þjálfarinn kunni, sagði Alexander einn öflugasta handknattleiksmann sem hann hefur kynst, er hann var yfirmaður handknattleiksmála hjá Flensburg er Alexander kom til liðsins. „Hann er vélmenni!“ sagði Anders.

 Af þeim tólf leikmönnum, sem eru fyrir ofan Alexander á leikjalistanum, eru 8 markverðir, tvær vinstrihandarskyttur og tvær rétthentar skyttur. Carsten Lichtlein, sem leikur í marki Dankersen Minden, er efstur á blaði með 712 leiki, en síðan koma Jan Holpert (625), Christian Schwarzer (600), Henning Fritz (589), Volker Zerbe (586), Jogi Bitter (574), Mattias Andersson (569), Stefan Hecker (561) Silvio Heinevetter (560), en hann er enn að og var félagi Alexanders hjá Melsungen, Michael Haass (552), Holger Glandorf (543), Andreas Thiel (528) og Alexander Petersson (522).

 Leikmennirnir eru allir Þjóðverjar nema Alexander og sænski markvörðurinn Andersson, sem lék með Kiel, Grosswallstadt og Flensburg.

Á Eivoru Pálu mikið að þakka

 Alexander er giftur Eivor Pálu Blöndal, fyrrverandi handknattleikskonu úr Val, og eiga þau tvo syni, Lúkas og Tómas. Alexander hefur oft sagt að hann ætti Eivor Pálu allt að þakka, sem handknattleiksmaður. Það hafi verið hans gæfa að kynnast henni ungur.

 Alexander, sem er fæddur í Riga í Lettlandi 2. júlí 1980, kom til Íslands 18 ára og hóf að leika með Gróttu/KR. 

 Ólafur Lárusson, handknattleiksþjálfari, var við stjórnvölin hjá Gróttu/KR þegar Alexander kom til liðsins frá Lettlandi sumarið 1998, 18 ára. Ólafur sagði að hann hafi fljótlega séð að þar væri mikill afreksmaður á ferðinni; sterkur sem hægri hornamaður og skytta – gríðarlega teknískur leikmaður, hraður, fljótur, líkamlega sterkur og með góðan stökkkraft.

„Alexander hefur líka þann mikla og góða eiginleika að gera nákvæmlega allt það sem honum er sagt að gera. Hann er sem sagt mjög sterkur inni í hópi og sterkur fyrir þjálfara sem leikmaður. Hann tekur tillit til þeirra sem eru í kringum hann.

 Hann er líka mjög sterkur í vörninni, sérstaklega í 3-3 vörn þar sem hann getur bæði spilað horn og bakvörð. Hann er lunkinn að stela bolta og geysilega fljótur og nýtist þannig vel í hraðaupphlaupum.“

 Alexander fékk íslenskan ríkisborgararétt árið 2001 og varð að bíða í þrjú ár eftir að hann væri gjaldgengur í íslenska landsliðið, en Alexander var búinn að leika 27 landsleiki fyrir Lettland þegar hann lék sinn fyrsta landsleik í janúar 2004 og fór með landsliðinu á HM í Túnis stuttu síðar. Viggó Sigurðsson, landsliðsþjálfari, var afar ánægður að fá að nýta sér krafta Alexanders og sagði að hann kæmi til með að fylla það skarð sem Bjarki Sigurðsson og Valdimar Grímsson skildu eftir í hægra horninu, þegar þeir hættu að leika með landsliðinu. „Alexander getur einnig leyst þá Ólaf Stefánsson og Einar Hólmgeirsson af hólmi. Þá er hann afar sterkur varnarleikmaður og gefur allt í leikinn.“

 Alexander lék 186 landsleiki á árunum 2004–2021 og skoraði 725 mörk.

 Hann var kjörinn Íþróttamaður ársins á Íslandi 2010.

Með sex liðum í „Bundesligunni“

 Ferill Alexanders með félagsliðum er: 

1998–2003 Grótta/KR.

2003–2005 HSG Düsseldorf.

2005–2007 TV Grosswallstadt.

2007–2010 SG Flensburg-Handewitt.

2010–2012 Füchse Berlín.

2012–2021 Rhein-Neckar Löwen.

2021  SG Flensburg-Handewitt.

2021–2022 MT Melsungen.

 Alexander lék 19 keppnistímabil í Þýskalandi, þar af 18 keppnistímabil í „Bundesligunni“. Hann lék 522 leiki í deildinni og skoraði 1.757 mörk. Alexander skoraði átta sinnum yfir 100 mörk í deildinni, mest með Grosswallstadt 2006-2007, eða 188.

 Það hefur verið mikill styrkur fyrir Alexander, að á öllum keppnistímabilum í „Bundesligunni“ nema tveimur hafa Íslendingar verið við hlið hans.

 * Markús Máni Michalsson Maute hjá Düsseldorf.

 * Einar Hólmgeirsson hjá Grosswallstadt og Flensburg.

 * Dagur Sigurðsson, þjálfari, og Rúnar Kárason í Berlín.

 * Guðmundur Þ. Guðmundsson, þjálfari, Stefán Rafn Sigurmannsson, Guðjón Valur Sigurðsson og Ýmir Örn Gíslason hjá Rhein-Neckar Löwen, en með liðinu varð hann tvisvar Þýskalandsmeistari og einu sinni bikarmeistari. Löwen varð þrisvar í öðru sæti og mátti eitt sinn sjá af meistaratitli til Kiel á markatölu.

 * Guðmundur Þ. Guðmundsson, þrír leikir, Arnar Freyr Arnarsson og Elvar Örn Jónsson hjá Melsungen.

Gylfi Gylfason var öflugur hornamaður.

Leikjahæstu Íslendingarnir

 Það vill svo skemmtilega til að tveir leikjahæstu Íslendingarnir í „Bundesligunni“ hófu báðir að leika með meistaraflokki Gróttu/KR á Seltjarnanesi. Ég hef haldið saman hvaða Íslendingar hafa leikið í deildinni frá því að deildin var stofnuð 1977-1978.

  Leikjahæstu Íslendingar í „Bundesligunni“ eru:

522 Alexander Petersson, Düsseldorf, Grosswallstadt, Flensburg, Füchse Berlín, Rhein-Neckar Löwen, Melsungen.

462 Guðjón Valur Sigurðsson, Essen, Gummersbach, Kiel, Rhein-Neckar Löwen.

268 Gylfi Gylfason, Wilhelmshavener, Dankersen Minden.

260 Bjarki Már Elísson, Eisenach, Füchse Berlín, Lemgo.

258 Ólafur Stefánsson, Wuppertal, Magdeburg, Rhein-Neckar Löwen.

237 Róbert Sighvatsson, Shütterwald, Dormagen, Wetzlar.

222 Sigurður Bjarnason, Grosswallstadt, Dankersen Minden, Bad Schwartau, Wetzlar.

217 Róbert Gunnarsson, Gummersbach, Rhein-Neckar Löwen.

214 Rúnar Kárason, Füchse Berlín, Bergischer, Grosswallstadt, Rhein-Neckar Löwen, Hannover-Burgsdorf.

212 Patrekur Jóhannesson, Essen, Dankersen Minden.

205 Arnór Þór Gunnarsson, Bergischer.

184 Sverre Andreas Jakobsson, Gummersbach, Grosswallstadt.

172 Björgvin Páll Gústafsson, Magdeburg, Bergischer.

171 Aron Pálmarsson, Kiel.

167 Héðinn Gilsson, Düsseldorf, Fredenbeck, Dormagen.

166 Snorri Steinn Guðjónsson, Grosswallstedt, Dankersen Minden, Rhein-Neckar Löwen.

164 Einar Örn Jónsson, Wallau Massenheim, Dankersen Minden.

155 Einar Hólmgeirsson, Grosswallstedt, Flensburg, Ahlem Hamm-Westfalen, Magdeburg.

154 Sigurður Valur Sveinsson, Nettelstedt, Lemgo.

Sterk vörn. Allir léku þeir með þýskum liðum. Sigurður Valur Sveinsson, Sigurður Gunnarsson, Geir Sveinsson, Kristján Arason – Alfreð Gíslason fyrir aftan hann, og Atli Hilmarsson.

Tólf með Dankersen

 Af þeim 88 leikmönnum sem hafa leikið með 47 liðum í „Bundesligunni“ hafa tólf leikið með Dankersen Minden: Axel Axelsson, Ólafur H. Jónsson, Jón Pétur Jónsson, Sigurður Bjarnason, Páll Ólafsson, Patrekur Jóhannesson, Gústaf Bjarnason, Einar Örn Jónsson, Snorri Steinn Guðjónsson, Gylfi Gylfason, Ingimundur Ingimundarson og Vignir Svavarsson.

 * 7 leikmenn hafa leikið með Rhein-Neckar Löwen, en tveir með Kronau-Östringen eins og liðið hét áður, fram að 2008-2009 tímabilinu. Guðmundur Hrafnkelsson og Gunnar Berg Viktorsson léku með Kronau, en Guðjón Valur, Ólafur Stefánsson, Snorri Steinn, Róbert Gunnarsson, Alexander, Stefán Rafn og Ýmir Örn með Löwen.

 * 7 leikmenn hafa leikið með Magdeburg: Ólafur Stefánsson, Sigfús Sigurðsson, Arnór Atlason, Einar Hólmgeirsson, Björgvin Páll Gústafsson, Gísli Þorgeir Kristjánsson og Ómar Ingi Magnússon.

 * 6 leikmenn léku með Wüppertal, Dagur Sigurðsson, Ólafur Stefánsson, Geir Sveinsson, Valdimar Grímsson, Þröstur Helgason og Heiðmar Felixson. Eftir að Wuppertal og Solingen voru sameinuð í Bergicher (2011-2012) hafa fjórir leikmenn leikið með liðinu; Rúnar Kárason, Arnór Þór Gunnarsson, Björgvin Páll Gústafsson og Ragnar Jóhannsson.

 * 6 leikmenn hafa leikið með Gummersbach. Kristján Arason, Júlíus Jónasson, Guðjón Valur Sigurðsson, Róbert Gunnarsson, Sverre Andreas Jakobsson og Guðlaugur Arnarsson.

 Þá hafa 6 leikmenn leikið með Wetzlar og Grosswallstad, fimm með Düsseldorf, Göppingen og Dormagen, sem fór á hausinn og var síðan endurvakið um tíma sem Rheinland, sem tveir Íslendingar léku með; Sigurbergur Sveinsson og Árni Þór Sigtryggsson.

Patrekur Jóhannesson í leik gegn Kiel.

 Markahæstu Íslendingarnir

 Lokapistill minn um íslenska handknattleiksmenn í „Bundesligunni“ í Þýskalandi verður um þá leikmenn sem hafa skorað mest í deildinni og ýmislegt annað.

​​​​​Auf Wiedersehn!

Sigmundur Ó. Steinarsson.

Nokkrar fyrri greina Sigmundar sem hann hefur skrifað fyrir handbolta.is:

Svana fyrst eftir „teinunum“ í Þýskalandi

„Furan“ og „rauðhærði villimaðurinn“

Geir himnasending fyrir Göppingen

Axel og Kristbjörg – meistarahjón!

„Umbarnir“ voru ekki vaknaðir!

Axel með þýðingamesta vítakast Þýskalands!

Kókkassakast styrkti skothörku þeirra!

Íslendingar komu, sáu og sigruðu

Blaðamaður „stal“ aðalhlutverkinu!

Ólafur var sá besti

Ómar Ingi og Gísli Þorgeir í fótspor Ólafs og Alfreðs?

Pabbi forseta Íslands lagði línuna fyrir Kiel!

Siggi Sveins skaut eins og John Wayne!


- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -