Ólafur Brim Stefánsson er kominn til liðs við handknattleikslið Gróttu að lokinni ársdvöl í herbúðum Fram. Hann hefur skrifað undir tveggja ára samning við Gróttu, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá Seltjarnarnesliðinu.
Ólafur Brim er 22 ára gamall og lék með Gróttu frá 2020 til 2022. Þar áður var Ólafur leikmaður Vals. Seinna tímabilið með Gróttu skoraði hann 92 mörk og var einn besti leikmaður liðsins, jafnt í vörn sem sókn.
„Það eru frábærar fréttir að Óli sé kominn aftur í Gróttu. Óli er öflugur á báðum endum vallarins. Hann er frábær varnarmaður og mun klárlega hjálpa okkur í þeirri baráttu sem framundan er í Olísdeildinni. Við hlökkum mikið til að vinna með honum næstu árin,“ er haft eftir Róberti Gunnarssyni þjálfara meistaraflokks Gróttu í tilkynningu.
Leikmenn hafa borist til Gróttu nánast eins og á færibandi síðustu daga. Andri Fannar Elísson, Ágúst Ingi Óskarsson og Gunnar Dan Hlynsson hafa komið til félagsins á síðustu vikum og nú hefur Ólafur Brim bæst í hópinn. Eftir því sem næst verður komist hefur færibandið ekki verið stöðvað.