- Auglýsing -
- Auglýsing -

HMU19: Svekktur og sár – ætluðum okkur meira

Frá leik Íslands og Egyptalands í dag. Mynd/IHF / HRS / kolektiff
- Auglýsing -

„Ég er svekktur og sár eins og aðrir í hópnum. Við ætluðum okkur meira en raun varð á,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U19 ára landsliðs karla í handknattleik í samtali við handbolta.is í dag eftir landsliðið tapaði fyrir Egyptum í síðustu umferð riðlakeppni heimsmeistaramótsins, 33:30. Úrslitin urðu þess valdandi að íslenska liðið leikur um sæti 17 til 32 en stefnan var sett á að vera í að minnsta kosti hópi sextán efstu liðanna.

Nýjar áherslur – forsetabikarinn

„Nú taka við nýjar áherslur hjá okkur í síðari keppnisviku mótsins. Í stað þess að vera á meðal 16 efstu þá förum við í keppnina um forsetabikarinn. Okkar markmið hlýtur þar með að vera að leika til úrslita um þann bikar,“ sagði Heimir en forsetabikarinn er veittur því liði sem hafnar í 17. sæti, þ.e. verður efst í neðri hluta mótsins. Ísland hefur einu sinni unnið forsetabikarinn á heimsmeistaramóti. U21 árs landsliðið náði þeim áfanga á HM 2009 sem fram fór í Egyptalandi.

HMU19: Dagskrá, úrslit og staðan, riðlakeppni

Reynir Þór Stefánsson að skora eitt níu marka sinna í leiknum. IHF / HRS / kolektiff

Ætluðum upp úr riðlinum

Heimir viðurkenndi að niðurstaðan af riðlakeppninni væri kjaftshögg. „Við ætluðum okkur upp úr riðlinum. Tapið fyrir Tékkum á miðvikudaginn gerði róðurinn þyngri. Þá eins og í dag fórum við illa að ráði okkar,“ sagði Heimir og bætti við að kaflar í leiknum í dag, framan af voru þeir bestu hjá íslenska liðinu í mótinu.

Eitt mark gegn 11

„Við vorum flottir framan af og með fimm marka forskot þegar fjórar mínútur eru til hálfleiks. Forskotið rann okkur úr greipum á nokkrum mínútum og var orðið að einu marki í hálfleik eftir ótrúlegan klaufaskap þegar við fórum illa með færin og töpuðum boltanum oft mjög illa. Því miður hélt þessi slæmi kafli áfram í síðari hálfleik. Skyndilega vorum við komnir fimm mörkum undir og Egyptar búnir að skora 11 af síðustu 12 mörkum leiksins. Okkur tókst að jafna metin eftir þetta, 22:22, en vantaði svolítið upp á vinna leikinn,“ sagði Heimir og bætti við að fyrst og síðast hafi slök skotnýting orðið íslenska liðinu að falli.

„Við fengum mýgrút af færum en skutum illa á markið. Mjög oft á fyrsta tempói þótt margoft hafi verið talað um að gera það ekki. Þess utan gerðum við einnig alltof marga tæknifeila,“ sagði Heimir Ríkarðsson annar þjálfara U19 ára landsliðs karla í handknattleik í samtali við handbolta.is.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -