- Auglýsing -
- Auglýsing -

Haukar sluppu fyrir horn

Aron Kristjánsson. Mynd/ J.L.Long
- Auglýsing -

Botnlið Olísdeildar karla, ÍR, stóð hressilega í toppliði Hauka í viðureign liðanna í Austurbergi í kvöld. Segja má að Haukar hafi sloppið fyrir horn eftir harða mótspyrnu ÍR-inga sem voru á köflum með frumkvæði og hreinlega neituðu að játa sig sigraða fyrr en flautað var til leiksloka. Lokatölur, 29:26, eftir að jafnt var að loknum fyrri hálfleik, 13:13.


Tjörvi Þorgeirsson skoraði fyrsta mark leiksins og kom þar með Haukum á bragðið. Gestirnir úr Hafnarfirði náðu ekki forystunni aftur fyrr en á 23. mínútu er Ólafur Ægir skoraði 12. mark þeirra og kom Haukum marki yfir.


Hafi menn haldið að af ÍR-ingum myndi renna mesti móðurinn í hálfleikshléinu þá var svo ekki. Þeir höfðu í fullu tré við Hauka allan síðari hálfleikinn og voru á stundum marki yfir. Meira að segja þegar fimm mínútur voru til leiksloka og Haukar komnir þremur mörkum yfir, 27:24, þá höfðu leikmenn ÍR ekki sagt sitt síðasta orð. Þeir minnkuðu muninn í eitt mark, 27:26, en komust ekki nær. Haukar skoruðu tvö síðustu mörkin og máttu teljast góðir að sleppa með bæði stigin heim í Hafnarfjörð.


Haukar eru þar með komnir í efsta sætið á nýjan leik. Þeir eru með 17 stig eftir 10 leiki og eru stigi á undan FH sem hefur einnig leikið einum leik fleira.


Baráttugleði ÍR-inga skilaði þeim ekki stigi að þessu sinni. Þeir sýndu hinsvegar að þrátt fyrir að enn vandi þeim stig í safnið hafa þeir ekki lagt árar í bát og eru svo sannarlega sýnd veiði en ekki gefin.


Mörk ÍR: Sveinn Brynjar Agnarsson 10, Viktor Sigurðsson 6, Gunnar Valdimar Johnsen 4, Ólafur Malmquist 2, Ólafur Haukur Matthíasson 2, Dagur Sverrir Kristjánsson 1, Andri Heimir Friðriksson 1.
Varin skot: Ólafur Rafn Gíslason 7, 24,1 % – Óðinn Sigurðsson 1, 12,5%.


Mörk Hauka: Orri Freyr Þorkelsson 6/4, Þráinn Orri Jónsson 6, Darri Aronsson 6, Adam Haukur Baumruk 3, Geir Guðmundsson 2, Ólafur Ægir Ólafsson 2, Brynjólfur Snær Brynjólfsson 1, Halldór Ingi Jónasson 1, Tjörvi Þorgeirsson 1, Atli Már Báruson 1.
Varin skot: Björgvin Páll Gústavsson 4, 20% – Andri Sigmarsson Scheving 1, 9,1%.

Öll tölfræði leiksins hjá HBStatz.

- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -