- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -

Molakaffi: Stiven, Bjarki, Viggó, Andri, Teitur, Janus, Leifur og fleiri

Stiven Tobar Valenica leikmaður Benfica. Mynd/Benfica
- Auglýsing -
  • Stiven Tobar Valencia skoraði tvö mörk fyrir Benfica þegar liðið steinlá í æfingaleik við ungverska meistaraliðið Veszprém, 37:23. Bjarki Már Elísson lék ekki með Veszprém en eins og kom fram á dögunum er hann að jafna sig eftir aðgerð á hné í byrjun júlí. 
  • Viggó Kristjánsson og Andri Már Rúnarsson skoruðu tvö mörk hvor þegar SC DHfK Leipzig vann Vfl Potsdam, 32:19, í æfingaleik í gær. Þetta var níundi sigurleikur Leipzig á undirbúningstímabilinu fyrir þýsku 1. deildina og víst er að Rúnar Sigtryggsson og leikmenn hans mæta fullir sjálfstrausts til leiks þegar keppni hefst í þýsku 1. deildinni eftir um viku. 
  • Teitur Örn Einarsson var ekki á meðal þeirra sem skoraði mark fyrir Flensburg þegar liðið tapaði fyrir Aalborg Håndbold í æfingaleik í Álaborg í gær, 34:29. Uppselt var á leikinn, 5.500 áhorfendur í Sparekassen Danmark Arena. Emil Jakobsen skoraði sjö mörk fyrir Flensburg og Kay Smits sex. Þeir voru markahæstir. Mikkel Hansen var markahæstur hjá Aalborg með sjö mörk og Lukas Nilsson skoraði sex sinnum. 
  • Evrópumeistarar SC Magdeburg unnu slóvenska liðið Gorenje Velenje, 32:26, í síðasta æfingaleik liðsins áður en átökin hefjast í þýsku 1. deildinni innan nokkurra daga. Janus Daði Smárason lék með Magdeburg í leiknum en skoraði ekki mark.
  • Leifur Óskarsson verður áfram aðstoðarþjálfari kvennaliðs Fjölnis í handknattleik, eftir því sem handknattleiksdeildin sagði frá í skorinorðri tilkynningu í gær. 
  • Drammen vann Fjellhammer, 30:28, í fyrstu umferð á æfingamóti í Noregi í fyrrakvöld. Róbert Sigurðarson gekk til liðs við Drammen í sumar. Með liðinu leikur einnig hinn hálf íslenski Viktor Petersen Norberg. Ásgeir Snær Vignisson er nýr liðsmaður Fjellhammer. 
  • Spánarmeistarar Barcelona staðfestu í gær að slóvenski miðjumaðurinn Domen Makuc verður frá keppni í allt að eitt ár vegna krossbandaslits sem hann varð fyrir í æfingaleik á dögunum. 
  • Afar dapurt ástand er hjá danska úrvalsdeildarliðinu Aarhus United eftir að upp úr sauð í herbúðum liðsins í lok leiktíðar í vor. Leikmenn gerðu þá uppreisn gegn þjálfaranum sem stýrt hafði liðinu af mikilli hörku. Uppnámið kom illa við marga og m.a. sögðu stjórnarmenn af sér og skipt var um framkvæmdastjóra. Ekki varð þetta til að bæta auman fjárhag félagsins sem nú er í þeirra stöðu að standa frammi fyrir þeim eina kosti að ráða aðstoðarþjálfarann í starf aðalþjálfara því enginn annar var fáanlegur í starfið. Þess utan verður ekki aðstoðarþjálfari hjá liðinu á tímabilinu, alltént ekki til að byrja með. Félagið hefur hreinlega ekki efni á að splæsa í aðstoðarmann. 
  • Ekki er nema nema rúm tvö ár síðan að Aarhus United var svo gott sem gjaldþrota en á elleftu stundu tókst að bjarga málum fyrir horn. Aarhus United varð til fyrir sex árum með sameiningu nokkurra liða í Árósum. Vonir stóðu til að blásið yrði til sóknar í kvennahandknattleik í borginni en raunin hefur orðið önnur.  Birna Berg Haraldsdóttir lék með Aarhus United frá 2017 til 2019 og síðar var Thea Imani Sturludóttir hjá félaginu í skamman tíma árið 2020.
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -
- Auglýsing -