- Auglýsing -
- Viktor Gísli Hallgrímsson og samherjar í Nantes unnu portúgölsku meistarana FC Porto, 35:28, í fimmta og síðasta æfingaleik liðsins í gær.
- Kristján Örn Kristjánsson, Donni, og samherjar í franska liðinu PAUC búa sig af krafti undir keppnistímabilið sem framundan er. Þeir unnu Toulouse, 31:30, í æfingaleik í gær. Sem fyrr reynist oft torsótt að finna tölfræði úr æfingaleikjum. Þess vegna liggur ekki fyrir hvort og þá hve mörg mörk Donni skoraði í leiknum.
- Franski handknattleiksmaðurinn Nikola Karabatic tilkynnti í gær að tilvonandi tímabil yrði það 22. og síðasta árið á ferlinum sem handknattleiksmaður. Karabatic verður 40 ára á næsta ári. Hann hefur unnið allt sem hægt er að vinna með landsliði Frakklands og þeim félagsliðum sem hann hefur leikið með í gegnum tíðina. Karabatic er af mörgum talinn vera fremsti handknattleiksmaður sögunnar.
- Einn efnilegasti handknattleikspiltur Danmerkur, Thomas Arnoldsen, hefur í samráði við félagslið sitt, Aalborg Håndbold, ákveðið að taka sér ótímabundið frí frá frá æfingum og keppni í handknattleik. Þetta kemur fram í tilkynningu Aalborg Håndbold í gær.
- Síðasta ár hefur verið mjög viðburðaríkt hjá Arnoldsen sem er 21 árs gamall og var kjölfesta U21 árs landsliðs Dana sem hafnaði í fimmta sæti á HM sem fram fór í Grikklandi og í Þýskalandi í sumar undir stjórn Arnórs Atlasonar.
- Í tilkynningu Aalborg Håndbold segir að Arnoldsen sé líkamlega og andlega uppgefin eftir annasamt tímabil og sé nauðsynlegt að draga sig í hlé um óákveðinn tíma. Arnoldsen gekk til liðs við Aalborg Håndbold í sumar frá uppeldisfélagi sínu Skanderborg Aarhus.
- Auglýsing -