„Hann hefur sagt það sjálfur að hann mun ekki skora 10 mörk og leika í 60 mínútur í hverjum leik. Það verður ekkert svoleiðis,“ segir Óskar Bjarni Óskarsson þjálfari karlaliðs Vals í samtali við Handkastið spurður um hlutverk Alexanders Peterssonar í Valsliðinu á komandi keppnistímabili.
Fyrst og fremst varnarleikur
„Við hugsum þetta til að byrja með mest út frá varnarleiknum. Ef vel gengur þá getur hann vonandi leikið sem mest. Við sjáum til hvernig annað þróast,“ segir Óskar Bjarni ennfremur en viðtalið í Handkastinu er finna í spilaranum neðst í þessari grein.
Alexander ákvað óvænt í sumar að taka fram keppnisskóna á nýjan leik og ganga til liðs við Vals í Olísdeildinni í vetur. Hann hætti keppni sumarið 2022 eftir 19 ár með þýskum félagsliðum auk 186 landsleikja á 16 ára tímabili.
Er í þrusu standi
Alexander hefur æft af krafti í Þýskalandi síðustu vikur en er væntanlegur til landsins í dag, eftir því sem næst verður komist. „Hann er í þrusu standi eins og venjulega,“ segir Óskar Bjarni.
„Alexander er að koma heim til þess að spila og njóta þess. Hann mun styrkja alla í kringum sem reynslu sinni. Hann langar að hafa gaman og spila handbolta. Ég veit að hann mun alltaf hjálpa okkur. Ég er sannfærður að þetta verður mjög gott,“ segir Óskar Bjarni sem tók við þjálfun Vals í sumar.
Í samtalinu við Handkastið sem hefst eftir ca 13,50 mínútur í spilaranum hér fyrir neðan rekur Óskar Bjarni einnig ástæður þess að Alexander ákvað að taka fram skóna og ganga til liðs við Val sem hann hefur aldrei leikið með áður.